Fyrir 10 árum síðan hélt ég fyrsta pallborðið fyrir skólabörn í Bíó Paradís. Ég sýndi myndina The Kid eftir Charles Chaplin og var með kynningu á listamanninum, myndum hans á löngum ferli og ekki síst um æsku hans og hversu mikið afrek það var að komast áfram þrátt fyrir sára­fátækt og skelfilegar fjölskyldu­aðstæður. Verða einn af áhrifamestu kvikmyndaleikstjórum kvikmyndasögunnar. Börnin voru svo áhugasöm að það var mér hvatning að þróa verkefnið frekar í samstarfi við Bíó Paradís. Brátt hófst kvikmyndafræðsla í Bíó Paradís þar sem skólabörn fengu að sjá myndir frá ýmsum þjóðlöndum sem þau hefðu annars ekki aðgang að og fengu tækifæri til að skoða kvikmyndir með gagnrýnum huga. Þar er meðal annars haldin kvikmyndasmiðja þar sem saga kvikmyndanna er kynnt með myndbrotum úr helstu meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Við það má bæta að skólabörn fá viðunandi aðstöðu til að sjá myndir í bestu gæðum sem þau fá ekki að öðrum kosti í skólastofu.

Þessu verkefni hef ég veitt forstöðu í níu ár í Bíó Paradís og við höfum nú þjónustað hátt í 90.000 börn. Þetta er á margan hátt krefjandi starf en alltaf skemmtilegt og gífurlega gefandi, kannski af því að í fyrstu var það tilraunaverkefni. Hvernig átti að kenna börnum að nálgast kvikmyndina? Hvernig átti að kenna þeim að horfa á myndir með gagnrýni? Kenna þeim að horfa á bíóklassík í von um að þau kunni að meta ýmsar perlur kvikmyndasögunnar, alla vega vita af þeim og kannast við áhrif þeirra á kvikmyndir samtímans? Næstu skref voru í startholunum til að gera kennsluna mun markvissari.

Árið 2013 fékk bíóið styrk til að vera með kvikmyndafræðslu fyrir framhaldsskóla. Það gekk hægt í fyrstu að byggja þá starfsemi upp, en með tímanum blómstraði hún og ungmenni komu úr flestum framhaldsskólum í Reykjavík og nágrenni til að hlýða á fyrirlestra um þær kvikmyndir sem hafa markað spor í sögu kvikmyndanna, ræða um þær á eftir og greina þær ofan í kjölinn. Það var einstaklega gaman að sjá nemendurna fá aukið sjálfstraust eftir því sem leið á hverja önn með því að greina kvikmyndir ásamt nemendum úr öðrum skólum. Það er engin spurning að slík viðbótarfræðsla er bráðnauðsynleg. Þeirri starfsemi var því miður hætt vegna fjárskorts árið 2019, einmitt þegar mikil ásókn var í fræðsluna og margir skólar vildu setja námskeiðið inn í námsáætlun þeirra.

Það er á hreinu að sýningar fyrir grunnskólabörn og framhaldsskólanema eru brýn nauðsyn svo þau geti kynnst kvikmyndinni sem listgrein, ekki aðeins notið hennar sem afþreyingar þar sem tæknibrellur og hraði eru í fyrsta sæti. Ég hef sjálf mjög gaman af ofurtæknivæddum hasarmyndum; enda er ekkert að því, en ég tel sem kvikmyndafræðingur að nauðsynlegt sé að sýna kvikmyndir sem hafa önnur markmið að leiðarljósi.

Í Bíó Paradís fá grunnskólabörn tækifæri til að sjá nýjar íslenskar kvikmyndir með leikstjóra og framleiðendur viðstadda sem svara spurningum þeirra og útskýra hvernig staðið var að gerð og framleiðslu kvikmyndarinnar. Þau fá líka tækifæri til að sjá myndir um erfið samfélagsleg málefni, einelti, fíkn og kvíðaraskanir með fulltrúum SÁÁ, Geðhjálpar og Samtakanna 78, svo eitthvað sé nefnt, þar sem þau fá að ræða við þessa fulltrúa eftir áhorf og fá stuðning og hjálp ef svo ber undir. Þessi úrræði þurfa líka að vera til staðar.

Þar sem allt útlit er fyrir að starfsemi Bíó Paradísar verði hætt í vor, fá börn ekki lengur að njóta þess aðbúnaðar sem bíóið hefur upp á að bjóða sem menningarmiðstöð kvikmyndanna. Það er einlæg von mín að þeir sem hafa aðstöðu til að bjarga Bíó Paradís láti til sín taka og láta þá einstöku starfsemi sem þar er stunduð ekki hverfa úr menningarlífinu.