Ágæti Guðmundur Ingi.

Við viljum hér með skora á þig, að aflétta ekki friðun íslenzku rjúpunnar fyrir það veiðitímabil, sem fyrirhugað er 1. til 30. nóvember 2021.

Erum við með þessum hætti að andmæla ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ), frá 29. sept. 2021, um, að þú heimilir undanþágu frá friðun á um 20.000 fuglum, sem NÍ telur að muni ganga til skiptanna á um 5.000 veiðimenn, þannig, að heildarveiði hvers veiðimanns verði 4 fuglar.

Í fyrsta lagi, teljum við, að þessi ráðgjöf virði ekki nægjanlega það krítíska ástand, sem rjúpnastofninn er í, í öðru lagi metum við það svo, að þessi ráðgjöf sé óraunsæ og standist ekki í framkvæmd, og í þriðja lagi er það okkar skoðun, að þessi ráðgjöf, þ.e. hugsanleg framkvæmd hennar, standist ekki lög nr. 64/1994.

Við viljum færa eftirfarandi rök fyrir áskorun okkar:

Í tölvupósti frá Ólafi Karli Nielsen (ÓKN), helzta sérfræðingi NÍ um rjúpnamál, frá 8. okt. 2021, staðfestir hann, að vorstofn rjúpu nú, 2021, sé sá veikasti og minnsti, sem verið hefur, frá því að mælingar stofnsins hófust 1995, eða í 26 ár.
Mælist hann einvörðungu 69.000 fuglar.
Veiðistofn er, nú í haust, talinn 248.000 fuglar.
Þessi staðreynd ein og sér, hlýtur að hvetja ráðamenn til sérstakrar varkárni við mat á veiðum nú.

Í gagninu Mat á veiðiþoli rjúpna­stofnsins haustið 2021, frá 29. sept. 2021, samið af ÓKN, sem liggur þér fyrir, kemur fram á bls. 9, að veiðistofninn hafi aðeins tvisvar sinnum áður farið niður fyrir 300.000 fugla.
Annars vegar árið 2002, sem leiddi til þess, að fuglinn var friðaður af þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, árin 2003 og 2004, og svo aftur í fyrra, 2020, sem í raun hefði átt að leiða til friðunar þá líka, ef samræmis hefði verið gætt.
Nú, milli ára, hefur vorstofninn svo minnkað aftur, frá því lágmarki, sem var í fyrra, 2020, um 30%, úr 99.000 fuglum í 69.000 fugla, þannig, að ráðgjöf um frekari veiðar nú skortir allt samræmi, allt hóf og alla skynsemi að okkar mati.
Fbl_Megin_Steinskrift: 3. Í sama gagni, á bls. 11, kemur þetta fram:
A. Árlegur meðaltalsveiðistofn síðustu 16 ár, 2005 til 2020, var 600.520 fuglar, og var hann lægstur á þessu tímabili 282.478 fuglar.
Nú er þetta met um lágmarksstofn, sem sé, slegið, með 248.000 fuglum.
Enn ein alvarleg viðvörun.
B. Meðalveiði á veiðimann á ári, á þessu 16 ára tímabili, skv. skrám, var 12 (11,1) fuglar.
Lágsmarksveiðimagn á veiðimann var 9 (8,8) fuglar, mest var veiðin á mann 16 fuglar.
Verður þá að spyrja, hvort heil brú sé í því, þegar gengið er út frá því, að veiðimenn sætti sig nú við heildarveiði upp á 4 fugla!?
Hver fer til fjalla fyrir slíka veiði og hver er sú fjölskylda, sem þessi fjöldi fugla myndi nægja í hátíðarmat?
Fyrir okkur stenzt þessi hugmynd og ráðgjöf um 20.000 fugla, 4 fugla á veiðimann, enga skynsamlega skoðun eða raunsætt mat, heldur býður hún upp á þá hættu, að um stórfellda ofveiði verði að ræða, sem gæti verið upphafið að endalokum íslenzka rjúpna­stofnsins.
Þegar stjórnvöld vilja innleiða reglur og lagaramma, sem stand­ast ekki praktíska skoðun eða eru fjarri venjum manna, vilja og þörfum, þá sýnir reynslan, að þær eru virtar að vettugi.

 1. NÍ og UST virðast ganga út frá því, að allir, sem veiða rjúpu, kaupi veiðileyfi og tilkynni sína veiði.
  Okkur er það stórlega til efs, að bændur og landeigendur telji sér bært að kaupa veiðileyfi fyrir veiðar á sinni eigin jörð eða sínu land.
  Slík kvöð samræmist vart þeim skilningi á eignarrétti, sem bændur og landeigendur hafa tamið sér.
  Er því líklegt, að hundruð eða þúsundir bænda og rjúpnaveiðar þeirra komi ekki fram í veiðitölum.
  Veiðiþjófnaður kemur auðvitað líka inn í myndina, auk þess, sem ætla má, að ýmsir vantelji sína veiði, sérstaklega, þegar veiðimagn (5 fuglar í fyrra) stendur í ekki í neinu samhengi við praktískar þarfir.
  Skv. ofangreindu, teljum við að taka verði áætlaðar veiðitölur, sem NÍ segir að verði 20.000 fuglar, nú í haust, ef veiðar verða leyfðar, með miklum fyrirvara.

Hvað varðar stofnstærð, bæði varpstofn að vori og veiðistofn að hausti, þá teljum við margt benda til þess, að sú talning og þær tölur kunni að standast, séu allavega góð vísbending, sem byggja megi á.
Skv. fyrirliggjandi gögnum NÍ var þróun vorstofns rjúpu síðustu 4 árin þessi:

2018 293.000 fuglar
2019 228.000 fuglar
2020 99.000 fuglar
2021 69.000 fuglar

Hvernig getur nokkrum manni, sem annt er um íslenzkt dýra- og lífríki og á auk þess að bera ábyrgð á stöðu þess og viðkomu gagnvart landsmönnum, dottið í huga, með hliðsjón af ofangreindri þróun, að mæla með áframhaldandi veiðum?

 1. Skv. lögum 64/1994, gr. 6, eru öll villt dýr, þar með talin rjúpan, friðuð. Aflétting friðunar er háð því, að ekki sé gengið á stofn, þannig, að veiðar og afföll fari ekki fram úr viðkomu.
  Tilgangurinn er, að stofn haldist eða aukist.
  Þessi lög tóku gildi 1. júlí 1994.
  Hrun vorstofns, skv. gr. 5 hér að ofan, og áframhaldandi árlegar veiðar, þrátt fyrir það, sýnir, að þess lög hafa verið virt að vettugi.
  Stofninn hefur verið í frjálsu falli, og samt var veitt áfram.
  Önnur hlið á þessu máli er, að skv. upplýsingum NÍ var vorstofn rjúpu fyrsta vorið eftir að lög 664/1994 tóku gildi, vorið 1995, 127.000 fuglar.
  Skv. okkar skilningi á lögunum, hefði aldrei mátta veiða, hafi vorstofn farið undir 127.000 fuglum.
  Það var og er sá lágmarksstofn, sem til þarf að koma, til að þeirri viðleitni sé sem bezt fylgt, að ekki sé gengið á stofn með veiðum.
  Það er auðvitað miklu meira en mál til komið, að ákvæðum laga nr. 64/1994 sé fylgt!
  Það þýðir það, að ekki verði veitt, sé vorstofn ekki minnst 127.000 fuglar.
  Eins og fram hefur komið, var hann 99.000 fuglar í fyrravor og 69.000 fulgar nú í vor.

Ágæti Guðmundur Ingi, við leggjum hart að þér, að skoða þessi mál nú vel, og í trausti þess, að þú skiljir og metir staðreyndir málsins og aðra þætti þess, með svipuðum hætti og við, skorum við á þig, að aflétta ekki friðun íslenzku rjúpunnar fyrr en vorstofninn er kominn í minnst 127.000 fugla aftur.

Opið bréf til um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra