Sigurbjörg Sigurjónsdóttir dýravinur skrifar:

Í frétt á visi.is, sem birtist þann 17. nóvember sl., og varðar dýr í mikilli neyð á Nýjabæ í Borgarfirði, er haft eftir þér að þú takir það sérstaklega fram að ekki hafi verið um að ræða harðýðgi eða svelti gagnvart dýrum á umræddum bæ. Þetta segir þú þrátt fyrir að myndir hafi birst af grindhoruðum og sýnilega þjáðum dýrum á bænum.

Þú tekur fram að það hafi verið „langt frá því að þau væru að svelta“. Loks er eftirfarandi haft eftir þér: „Það er mjög leiðinlegt að allir einhvern veginn bara trúa öllu sem sagt er“. Ekki er á þér að heyra að þér finnist „leiðinlegt“, hvað þá alvarlegt, hvernig komið er fyrir þessum vesalings skepnum.

Hvernig skyldi nú standa á því að „allir einhvern veginn bara trúa öllu sem sagt er“, eins og þú orðar það? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að fréttamyndir af vesalings dýrunum á viðkomandi bæ tala sínu máli með sláandi hætti? Þetta eru myndir af svo grindhoruðum og þjáðum dýrum að þau líkjast frekar beinagrindum en lifandi dýrum.

Að þínu mati er um „vanfóðrun“ að ræða, en þó „langt frá því að þau væru að svelta“ – að þínu mati. Mér er spurn hversu langt „vanfóðrun“ þurfi að ganga svo þú teljir það svelti gagnvart dýrunum? Þú telur að hvorki sé um að ræða harðýðgi né svelti, að ill meðferð á dýrum leiði til þess að þau verði svona á sig komin?

Svarið við knýjandi spurningu almennings, þess efnis hvers vegna Matvælastofnun hefur brugðist dýrum í neyð í hverju málinu á fætur öðru birtist í áður tilvitnuðum ummælum þínum, sem vekja án nokkurs vafa bæði furðu og viðbjóð almennings. Ummæli þín dæma sig sjálf og eru þér sem yfirdýralækni Matvælastofnunar til skammar. Þú átt, sem yfirdýralæknir, að hafa það hlutverk með höndum að sinna velferð og heilbrigði dýra en þau viðhorf þín, sem birtast í áður tilvitnuðum ummælum, samrýmast sannarlega ekki þeim skyldum sem á þér hvíla í þessu embætti.

Bæði Matvælastofnun og þú sem yfirdýralæknir stofnunarinnar eruð rúin trausti á sviði dýravelferðarmála. Það er sannarlega ekki vanþörf á að Ríkisendurskoðun geri nú úttekt á eftirliti Matvælastofnunar með velferð dýra, enda málin orðin fjölmörg og brýn sem kalla á slíka úttekt, og alvarleiki þeirra eftir því. Þess er óskandi að nú verði sem allra fyrst ráðist í allar þær nauðsynlegu breytingar sem þörf er á til að koma dýravelferðarmálum í betri farveg, nauðstöddum dýrum til velfarnaðar.

Boltinn er fyrir löngu kominn til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra og almenningur mun fylgjast með því hvort hún fari að rísa undir þeirri ábyrgð.

Höfundur er dýravinur.