Ég skrifaði eftirfarandi sem viðbragð við viðtalinu þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að verkafólk á Íslandi ætti ekki að búast við launahækkunum í komandi kjarasamningum. Ásgeir sagði að Seðlabankinn myndi neyðast til að grípa til aðgerða ef launahækkanir væru taldar „óraunhæfar“ eða „út úr korti“.

Ég skrifa sem aðfluttur láglaunamaður sem starfar í iðnaði, og sem einn af þeim sem eiga líf sitt og velferð beinlínis undir ákvörðunum Seðlabankans.

Við erum verkafólk

Við eldum hádegisverðinn þinn og færum þér kaffi.

Við gerum við bílinn þinn, malbikum vegina þína og fjarlægjum ruslið þitt.

Við tryggjum að þú sért með rennandi vatn og rafmagn, við gætum barnanna þinna og þrífum heimili þitt.

Við byggðum samfélagið þitt og berum ábyrgð á að halda því gangandi.

Við slítum okkur út í skiptum fyrir lúsarlaun og skríðum heim í lok dags bara til að sofna og byrja upp á nýtt daginn eftir.

Við erum grundvöllurinn og undirstaða alls sem þér er heilagt, en þrátt fyrir það virðist þú hafa gleymt gríðarlegu mikilvægi okkar.

Stundum gerast breytingar með einni stórri skriðu, jarðskjálfta sem hristir samfélagið inn að kviku.

En í öðrum tilvikum eru það þúsund litlar hreyfingar, svo miklu stærri en summan af pörtunum.

Hreyfing eins og það að höndin láti frá sér verkfærið og neiti að taka það upp aftur. Margfölduð aftur og aftur.

Þú segir að við eigum ekki að biðja um að hafa það betra. Ég segi að þú eigir að búa þig undir það versta.