Eigi hefi eg gegnt föstu starfi síðan fyrir bankahrun. Í nær þrjá áratugi hefi eg starfað sem þýskumælandi leiðsögumaður og þá ráðinn í hverja ferð fyrir sig. Þetta er því mjög ótryggt starf þar sem miklar kröfur eru gerðar til okkar leiðsögumanna. Frumskylda okkar er að gæta ætíð öryggis allra og að lífi ferðamannsins sé aldrei stefnt í voða. Eg minnist þess sérstaklega hve Birna G. Bjarnleifsdóttir sem var lengi skólastjóri Leiðsögumannaskólans lagði mikla áherslu á öryggismálin. Góð leiðsögn og góð ferð getur orðið einskis virði þegar öryggi ferðamanna er stefnt í hættu.

Nú eru fyrirtæki komin til sögunnar sem virðast sérhæfa sig í að setja ferðamenn í lífshættu. Lítið er skeytt um ferðamenn sem koma frá framandi löndum og enginn þeirra virðist gera sér fyllilega grein fyrir þeim hættum sem kunna að koma upp hér á landi, þegar hagstæðar aðstæður geta breyst skyndilega í versta veðravíti. Starfsmenn þessara fyrirtækja eru sumir nefndir leiðsögumenn, vegna þess að störf þeirra eru að mörgu leyti lík okkar störfum. Það þykir mér ganga þvert á minn skilning um starf leiðsögumannsins eins og okkur var kennt. Hver og einn getur kallað sig leiðsögumann hér á landi, enda hafa stjórnvöld of lengi hunsað sjónarmið lærðra leiðsögumanna sem útskrifaðir eru frá Leiðsöguskóla Íslands. Frá stofnun Félags leiðsögumanna 1972 sem nú nefnist Leiðsögn, félag leiðsögumanna hefur margsinnis verið farið fram á lögverndun starfsheitisins en því hefur fram að þessu verið hafnað af ómálefnalegum ástæðum og þar við situr.

Í mínum huga er sá starfsmaður ferðaskrifstofu sem vísvitandi tekur þá ákvörðun að setja líf ferðamanns í hættu, ekki leiðsögumaður. Þegar hætta reynist vera yfirvofandi ber að aflýsa ferð eða breyta, þannig að líf og heilsa ferðamannsins sé ætíð efst í huga.

Þegar skipulagðar hópferðir eru farnar m.a. til Austurríkis og Ítalíu er skylda að hafa innlendan leiðsögumann. Í þessum löndum er starf leiðsögumannsins lögverndað. Þetta er fyrst og fremst til þess að tryggja öryggi ferðamanna og ef út af ber þá er yfirleitt beitt viðurlögum.

Hvaða ástæður eru fyrir því að starf leiðsögumanna er ekki meira metið hér á landi?