Ég fagna því að fleiri vilji taka þátt í þessari vinnu og það eru allir vel­komnir að borðinu,“ sagði Lilja Al­freðs­dóttir mennta­mála­ráð­herra í for­síðu­við­tali við eitt iðn­fé­laganna í mars í fyrra. Hún hafði verið spurð hvers vegna full­trúar launa­manna hefðu ekki verið hafðir með í ráðum þegar til­lögur voru mótaðar um eflingu iðn- og tækni­náms. Sam­tök iðnaðarins og Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga skrifuðu á­samt ráð­herra undir sam­komu­lag byggt á þessari vinnu.

Ný reglu­gerð án sam­ráðs

Ári síðar kynnti ráðu­neytið nýja reglu­gerð, byggða á mark­miðum sam­komu­lagsins, um vinnu­staða­nám nem­enda í iðn- og tækni­námi. Reglu­gerðin var kynnt án nokkurs sam­ráðs við iðn­fé­lögin, þvert á fyrri fyrir­heit. Með reglu­gerðinni, sem tekur gildi í sumar­lok, færist á­byrgðin á því að komast á náms­samning frá nem­endunum sjálfum yfir á skólana og skólarnir á­byrgjast að allir sem inn­ritast í iðn­nám komist hnökra­laust í gegnum námið. Ef skólunum tekst ekki að koma nema á samning hjá iðn­meistara tekur svo­kölluð skóla­leið við. Í henni felst að skólinn sér til þess að neminn fái þjálfun, jafn­vel á fleiri en einum vinnu­stað. Við þessa breytingu er út­lit fyrir að nem­endum, sem ekki komast á hefð­bundinn samning, verði gert að vinna kaup­laust fyrir fyrir­tæki. Með þessu er verið að ryðja braut fé­lags­legra undir­boða á ís­lenskum vinnu­markaði í boði mennta­mála­ráð­herra. Iðn­nemar hafa alla tíð fengið greitt fyrir sína vinnu á meðan á náms­samningi eða starfs­þjálfun stendur.

Full­trúum iðn­fé­laganna voru kynnt drög að reglu­gerðinni í desember og þau skiluðu í kjöl­farið sam­eigin­legri um­sögn. Þar var farið yfir ýmis brýn á­lita­mál, svo sem um inn­leiðingu raf­rænnar feril­bókar sem kynnt er til leiks í reglu­gerðinni, mikil­vægi sam­ræmis á milli náms­leiða og jafn­ræðis á milli fyrir­tækja, sem ýmist greiða starfs­nemum laun fyrir vinnu sína eða ekki, eftir því hvor leiðin er farin. Reglu­gerðin gerir loks ráð fyrir því að horft verði til hæfni nemans fremur en viku­fjölda við á­kvörðun um lengd vinnu­staða­námsins. Slíka grund­vallar­breytingu þarf að hugsa til enda.

Iðn­fé­lögin fái rödd við borðið

Iðn­fé­lögin fagna allri vinnu sem miðar að því að styrkja iðn- og tækni­nám og við­leitni stjórn­valda til að fækka hindrunum og auka að­gengi að náminu. Nauð­syn­legt er til fram­búðar að tryggja full­nægjandi gæði námsins og eftir­lit. Þar fara hags­munir allra saman.

Enginn þekkir betur en starfandi iðnaðar­menn hvaða færni nem­endur í iðn­greinum þurfa að til­einka sér. Þeir lifa og hrærast í faginu; hafa þekkingu á réttu hand­bragði, efnis­vali og tækni­legum nýjungum, svo fátt eitt sé nefnt. Meistara­kerfið hefur gegnt lykil­hlut­verki í menntun iðn- og tækni­nema á Ís­landi og skilað þjóðinni iðnaðar­mönnum í fremstu röð. Það er hinn al­menni iðnaðar­maður sem tekur nema undir sinn verndar­væng á verk­stað og leið­beinir honum. Hætta er á að undan því kerfi verði grafið og fag­mennsku fórnað, ef ekki er vandað betur til verka þegar kemur að breytingum. Það er af þessum sökum sem mikil­vægt er að iðn­fé­lögin fái rödd, þar sem á­kvarðanir um grund­vallar­breytingar á náms­fyrir­komu­lagi iðn- og tækni­nema eru teknar.

Mennta­mála­ráð­herra hefur nú loksins, á loka­metrum vinnunnar og þegar búið er að breyta fyrir­komu­laginu með reglu­gerð, hleypt full­trúum iðnaðar­manna að borðinu. Fag­fé­lögunum á Stór­höfða 29-31 hefur verið boðið að leggja til full­trúa í hópa sem eiga að undir­búa inn­leiðingu reglu­gerðarinnar. Það er á­nægju­efni, enda er í mörg horn að líta. Iðn­fé­lögin sinna hags­muna­gæslu fyrir um 20 þúsund menntaða iðnaðar­menn og -konur á Ís­landi. Það er löngu tíma­bært að full­trúar þessa stóra og mikil­væga hóps komi með beinum hætti að mótun þessarar vinnu við fram­tíðar­mótun iðn­náms á Ís­landi.

For­maður MAT­VÍS, fyrir hönd stéttar­fé­laga í iðn- og tækni­greinum á Ís­landi.