Sæll, Ás­mundur Einar.

Við undir­ritaðar sjáum okkur ekki annað fært en að reyna að ná til þín með opnu bréfi. Á­stæðan fyrir því er að við höfum miklar á­hyggjur af því að þú ætlir ekki að upp­fylla lof­orð sem gefið var við undir­ritun Lífs­kjara­samningsins vorið 2019. Lof­orðið var að grípa til að­gerða til að upp­ræta þjófnað á launum verka- og lág­launa­fólks á Ís­landi. Í erfiðum kjara­deilum þann vetur var það eitt af okkar stærstu bar­áttu­málum að loksins yrði gripið til að­gerða vegna þessa.

Um­fang vandans er gríðar­legt. Á hverju ári er hundruðum milljóna stolið af verka­fólki. Frá árunum 2015-2019 var meira en einum milljarði stolið af fé­lögum í Eflingu. Fé­lagið sendir út mörg hundruð kröfur á hverju ári til að reyna að inn­heimta þýfið en inn­heimtan getur tekið mjög langan tíma. Á meðan ber manneskjan sem verður fyrir glæpnum kostnaðinn: getur ekki greitt reikninga eða húsa­leigu. Meðal­krafan sem Efling sendir frá sér fyrir hönd fé­laga er næstum því 500.000 krónur. Slík upp­hæð skiptir veru­lega miklu máli í lífi lág­launa­fólks. Hér tölum við af reynslu en vara­for­maður Eflingar varð til dæmis fyrir launa­þjófnaði í sínu fyrra starfi.

Það kostar stjórn­völd og ríkis­sjóð bók­staf­lega ekkert að upp­ræta launa­þjófnað á ís­lenskum vinnu­markaði. Þvert á móti mun það auka tekjur ríkis­sjóðs.

Nú er meira en eitt og hálft ár liðið frá undir­ritun Lífs­kjara­samningsins. Þetta mál hefur verið á þínu borði allan þann tíma. En þér hefur ekki tekist að upp­fylla lof­orðið, þrátt fyrir að hafa lofað því að lausn væri í sjón­máli á fundi með samninga­nefnd ASÍ þann 25. ágúst síðast­liðinn.

Sam­tök at­vinnu­lífsins hafa slegið skjald­borg um launa­þjófnað og kannski er það skýringin. Varla ætlar þú að láta varð­menn launa­þjófnaðar stjórna för? Þú hefur tæki­færi til að sýna að þú getir sett þig í spor verka­fólks, til að sinna skyldu þinni sem ráð­herra gagn­vart vinnandi fólki og börnum þeirra. Ætlar þú að láta það tæki­færi renna þér úr greipum?