Heill og sæll vert þú.

Ég vona að ég sé ekki að rífa þig burt frá bakstri eða lífsgæðaaukningunni sem þú segir okkur almúganum að sé umtalsverð. Maður í þinni stöðu, hefur kannski ekki mikinn tíma til að lesa eitt svona lettersbréf og það er skiljanlegt, en þú hlýtur að geta fengið aðstoðarmann þinn eða aðstoðarkonu til að segja þér undan og ofan af því sem fólk hugsar utan veggja Alþingis og Stjórnarráðs, þannig að ég örvænti ekki og verð alls ekki hissa þegar þú svarar ekki þessu tilskrifi.

Þannig er mál með vexti að ég er óskaplega fattlaus þegar kemur að yfirlýsingum valdhafa. Nú hefur þú farið mikinn um það hvað lífskjör hafa batnað, kaupmáttur aukist og að ellilífeyrisþegar og öryrkjadruslur eins og ég, hafi það margfalt betra en áður. Og fyrst að þú heldur þessu fram, þá hlýtur það að vera rétt. Ekki færi strangheiðarlegur pólitíkus (sem reyndar eru vandfundnir) að ljúga upp í opið geðið á landsmönnum þessarar fámennu þjóðar. Þannig að trúandi orðum þínum, þá spyr ég eins og fávís karldurgur: Hvar í mínu lítilsverða lífi finn ég alla þessa velmegun og öll þessi frábæru lífskjör og hvar í buddunni minni finn ég fyrir allri þessari hækkun örorkubóta.

Reyndar veit ég sosum að öryrkjar eru lítið annað en baggi á samfélaginu og þess vegna skammast ég mín alltaf fyrir að vera ekki bara jakkafataklædd fyrirvinna með almennileg laun hjá einhverju risafyrirtæki eins og Samherja og er inn undir hjá stjórnvöldum. Og til að vera almennileg manneskja ætti ég að eiga helling af peningum sem ég kemst aldrei yfir að njóta í einhverri skattaparadísinni.

En ég er auðvitað ekki að segja að þú gerir slíkt, þú ert í svo góðri vinnu að þú getur almennilega haldið heimili á Íslandi. Svoleiðis ríkidæmi á ég ekki og hef enga völ á því en bý við annars konar ríkidæmi sem til dæmis felst í því að hafa tíma með uppkomnum strákunum mínum og minnar fyrrverandi konu og nýt þess. En þó að tíminn sé til staðar, get ég lítið boðið upp á annað en sjálfan mig og það er auðvitað leiðigjarnt fyrir þá til lengdar. Og þá er loksins komið að aðalatriðinu, hvernig fer ég að því að finna fyrir öllum þessum bættu lífskjörum og hvar finn ég hækkunina á bótunum mínum? Ég er búinn að fá um skeið 145.000 krónur útborgaðar frá Tryggingastofnun á mánuði og kann greinilega ekki að þefa uppi alla hækkunina sem þú segir að ég hafi fengið. Með von um útskýringar,

bestu kveðjur,

Sigurður Ingólfsson.