Sæl vertu Katrín.

Það er að verða nokkuð um liðið síðan ég hef átt við þig orð. Nú get ég hins vegar ekki orða bundist og verð að spyrja þig nokkurra spurninga varðandi þá ákvörðun ríkisstjórnar þinnar að taka sér umboð til að útnefna forseta í Venesúela og taka um leið undir hótanir um innrás í landið.

Ástæða þess að ég beini orðum mínum til þín er fyrst og fremst sú að forsætisráðherra ber meginábyrgð á stefnu og aðgerðum ríkisstjórnar. Þú veist að ákvörðun ykkar er brot á alþjóðalögum og brot á fullveldi þjóðar Venesúela. Þú veist líka þessi ákvörðun er vatn á myllu bandarískrar innrásar í landið til að komast yfir olíuauðlindir. Þú veist enn fremur að vandamál Venesúela stafa að miklu leyti af þvingunaraðgerðum gegn landinu, sem staðið hafa í meira en áratug, auk verðlækkunar á olíu á heimsmarkaði.

Framvinda þessa máls fer að minna mjög á fyrirmyndir úr fortíðinni, sem varða Írak, Afganistan, Líbíu og Sýrland, þar sem íhlutun Bandaríkjanna og annarra Nató-landa hefur valdið ómældum hörmungum með því að leggja heilu samfélögin í rúst auk mikilla blóðsúthellinga. Eru þetta þær fyrirmyndir, sem þú vilt fylgja? Var það fyrir tóman misskilning sem við stóðum vikulega á mótmælafundum gegn yfirvofandi innás í Írak fyrir 16 árum? Eru íslensk sjórnvöld kannski bara á sjálfstýringu, sem er stillt í höfuðstöðvum NATO? Og er stjórnarandstaðan að sama skapi bara leikrit, sem flutt er til að skapa ímynd?

Fyrir 20 árum var stofnaður flokkur, sem flestir héldu þá að aðhylltist friðarstefnu og fullveldi þjóða. Þú skuldar því fólki, sem hefur átt viðdvöl í þessum flokki, skýringar á þessari ákvörðun. Og auðvitað þarftu að skýra þetta fyrir allri þjóðinni, án útúrsnúninga. Þú hlýtur líka að gera þér grein fyrir því að þessi ákvörðun grefur einnig undan fullveldi Íslands og hana má nota sem átyllu til að brjóta gegn því.

Ég vonast eftir svari frá þér hið fyrsta, svari sem er í samræmi við alvöru málsins.