Kæri forsætisráðherra.

Um daginn þegar átti að senda egypsku fjölskylduna úr landi þá sagðir þú að þú værir ekki að beita þér í einstökum málum heldur fyrir kerfisbreytingum, og talaðir um hvað útlendingalöggjöfin væri opnari hér en annars staðar.

En þá spyrjum við til baka: Ef við hugsum bara um löggjöf, er þá pláss fyrir mannlega samúð?

Þegar þú varst á okkar aldri, 14 eða 15 ára, hvað langaði þig að gera þegar þú yrðir stór? Hvernig samfélag ímyndaðir þú þér að yrði í framtíðinni? Langaði þig líka að Ísland yrði fyrir alla?

Viljum við vera þjóð þar sem allir eru eins? Viljum við hafa það orðspor að vera land sem sendir fólk burt sem á ekkert heimili? Eigum við ekki nóg af peningum, af hverju getum við þá ekki hjálpað þeim? Hver ákvað að þau megi ekki eiga heima hérna?

Þið eruð að senda krakka úr landi sem væru kannski bekkjarfélagar okkar. Vinir okkar. Þið eruð að senda burt krakka sem eru þegar orðnir vinir okkar. Eins og Milina, Kemal, Samir, Aya, Leo, Ali, David og öll hin börnin sem hafa verið send úr landi. Af hverju eru þau ekki að skrifa þetta bréf?

Kæri forsætisráðherra.

Þegar þú varst á okkar aldri, er þetta framtíðin sem þú vildir?

Bestu kveðjur,

Skrekkshópur Austurbæjarskóla 2020.