Á dögunum rak á fjörur mínar, er ég sigldi um hafsjó internetsins, eilítinn fróðleiksmola varðandi viðhorf almennings í Mexíkó til hvors tveggja í senn, loftkælingar og stjórnmála. Þannig er, að á heitari svæðum Mexíkó tíðkast að uppnefna loftkælibúnað húsanna sem „stjórnmálamenn“. Þetta kann að virðast langsótt, en á sér augljósa skýringu: Loftkælibúnaðurinn er mjög hávær, en gerir ekkert gagn. Loftið kólnar ekkert.

Fólkið uppsker bara skarkala og læti.Auðvitað gætir viðhorfa af þessu tagi til stjórnmála, og mögulega loftkælingar, ekki einungis í Mexíkó. Stjórnmálastéttin má búa við kaldhæðnislegar háðsglósur út um allar koppagrundir og mætti ætla að svo hafi verið allt frá upphafi tungumálsins. Sú manneskja sem gerir stjórnmál að iðju sinni hefur í raun tekið ákvörðun um að valda fólki vonbrigðum, eins ömurlega og það hljómar.

Þetta hlýst af því meðal annars að kröfur til stjórnmálafólks eru mun meiri en það getur nokkurn tímann risið undir eitt og sér. Þær eru óraunhæfar. Einstaklingur getur lofað, haft skýra sýn og talað með sannfærandi handahreyfingum og hárbeittu augnaráði um gildi hins og þessa, og nauðsyn þess að gera hitt og þetta, en þegar komið er inn í sal þjóðþingsins er slíkur einstaklingur iðulega léttvægur fundinn og alls konar meistarar hafa allt aðrar skoðanir og hafa með álíka sannfærandi handahreyfingum komist að þeirri niðurstöðu að hið þveröfuga þurfi að gera.

Svo er rökrætt og fundað. Úr verður mikið uppistand, og niðurstaða sem veldur víðfeðmum vonbrigðum.Af öðrum sjónarhóli er þetta fyrirkomulag frábært. Það kallast lýðræði. Þegar öllu er á botninn hvolft vita margir að stjórnmálamaður verður aldrei eins og straumlínulagaður, glansandi loftkælibúnaður sem hefur bara eitt verkefni, leysir það, og slekkur svo á sér.

Fólk er ekki maskínur, þaðan af síður fullkomnar maskínur, hvorki í stjórnmálum né annars staðar. Líklega felur hið kaldhæðnislega viðhorf Mexíkóbúa til stjórnmála og loftkælingar í sér heilbrigðari nálgun. Fólk í stjórnmálum er meingallað, en það skröltir áfram og reynir að gera sitt besta, í ófullkomnum heimi margra skoðana og mismunandi reynslu.

Með lagni má meira að segja í slíkum aðstæðum mögulega ná einhverjum árangri, eins og dæmin sýna. Saga stjórnmála er ekki eintóm saga vonbrigða, heldur líka saga stórkostlegra sigra, framfara og góðra ákvarðana.Að þessu sögðu, verð ég þó að játa að upp á síðkastið hefur læðst að mér sá grunur að hinar eðlislægu takmarkanir stjórnmála — þref án árangurs — geri það að verkum að mannkyni muni á endanum gjörsamlega mistakast að takast á við helstu og mest aðkallandi úrlausnarefni okkar tíma, og er þar Ísland með talið.

Nú eru tveir mánuðir í kosningar. Ég finn Mexíkóann í mér vaxa mjög, þótt ég þráist við. Í góðviðrinu á Suðvesturhorninu velti ég fyrir mér upp að hvaða marki samlíking stjórnmálafólks við handónýtan loftkælibúnað sé sönn. Eru stjórnmálin biluð?Þá opinberaðist mér allt í einu, sem ég sat sveittur í sólstól á palli — gott ef ekki í sams konar hita og í Mexíkó — kraftur líkingarinnar.

Jú, eitt er það að stjórnmál séu yfirgripsmikið karp um stefnur og strauma og að stundum reynist erfitt að þoka hlutum áfram. Þetta vitum við, og líklega fátt annað að gera en að taka hatt sinn ofan gagnvart þeim sem hafa þrek til að standa í því streði. Og vissulega er það líka rétt að jafnvel þótt allir virðist sammála getur samt verið áratugaverkefni að koma einhverju í verk, eins og að efla heilbrigðiskerfið eða nýsköpun. Er það verr og miður.

Líkingin öðlast þó enn dýpri merkingu þegar spáð er í stærstu vandamál samtímans og auðsjáanlegt máttleysi stjórnmálanna gagnvart þeim. Íslendingar eru ein neyslufrekasta þjóð heims. Neysla þjóðarinnar er fullkomlega ósjálfbær. Kolefnissporið er gígantískt. Ef allar þjóðir væru eins og Ísland væri veröldin endanlega í fullkominni sjóðheitri klessu.

Einhvern veginn finnst mér þó verulega ólíklegt að slagorðin „drögum saman seglin“ eða „minnkum kökuna“ eða „vöxum hægar“ verði mjög vinsæl í komandi kosningabaráttu, ef nokkurn tímann. Kannski hef ég rangt fyrir mér. Ég mun rýna eftir því hvort þessara radda gæti. Ég hallast hins vegar að því að stjórnmál séu þannig gerð, að á vettvangi þeirra sé nánast ómögulegt að hægja á þjóðfélögum, heldur er einungis mögulegt að styðja og keppa að veruleika þar sem mikið vill sífellt meira. Vöxtur meiri. Neysla meiri. Kaupmáttur meiri. Hjólin hraðari. Hitinn hærri.

Þetta er vegur til glötunar, en samlíking stjórnmála við kraftlausa loftkælingu fær hér þrungið inntak. Verkefni mannkyns er einmitt þetta, í bókstaflegri merkingu: Að kæla andrúmsloftið. Stærsta hlutverk stjórnmála samtímans er að vera loftkæling. Sá búnaður virðist handónýtur. Mikil læti, en loftið kólnar ekki neitt.