„Ómeðvituð hlutdrægni! Bíddu, aðeins, segðu mér meira“ eða „Ómeðvituð hlutdrægni! Ég skil ekki alveg, getur þú sagt mér hvernig það hljómar á ensku?“

Þetta eru undantekningarlaust viðbrögð fólks þegar ég er spurð að því hvað við erum að gera hjá No More Boxes vitundarvakningunni.

Mitt svar hefur verið: Ómeðvituð hlutdrægni er það sem kallast á ensku: unconscious biases, þ.e.a.s. undirliggjandi viðhorf okkar og viðbrögð sem stjórna allt að 95% af öllum okkar daglegu aðgerðum sem byggja á undirliggjandi prógrömmum, viðhorfum okkar og viðbrögðum sem við höfum þróað með okkur og tekið með okkur í nesti frá fyrri kynslóðum.

Þegar fólk áttar sig á hugtakinu ómeðvituð hlutdrægni, þá opnast fyrir flóðgáttir af sögum. Sögur um hvernig fólk hefur upplifað ómeðvitaða hlutdrægni í gegnum tíðina. Sögur um viðbrögð við #metoo umræðu. Sögur um konur sem eru beðnar um að ná í kaffið eða karlar að smíða, gera við og græja hlutina, þrátt fyrir að kunna það alls ekki og hafa engan áhuga á því að læra það.

Þessi opnun og einlægur áhugi fólks sýnir að fleiri og fleiri eru að sjá og finna á eigin skinni að gömlu stereótýpu kynjaboxin eru enn þá spriklandi fersk, dansandi undir yfirborðinu og stjórna lífi okkar allra á einn eða annan veg.

Það er okkur, mannfólkinu, jafn eðlilegt að setja okkur sjálf og aðra inn í box eins og að draga andann. Stereótýpu kynjaboxin, eru eins og öll önnur box, hönnuð með það að leiðarljósi að setja fólk inn í box eftir persónulegu viðhorfi okkar, í þessu tilfelli viðhorfi til kynjanna eða kynvitundar fólks.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir kemur upp á yfirborðið þegar við förum að gera ráð fyrir að fólk lifi og hagi sér eins og stereótýpu kynjaboxin. Og það sem er enn þá verra er þegar við hleypum fólki ekki einu sinni út úr boxinu til að draga andann, leyfa því að átta sig á því að það vill ekkert eiga heima í þessu boxi sem hefur skilgreint það til þessa dags. Stereótýpu kynjaboxið er hreint út sagt hlægilega fáránlegt. Á sama tíma eitt mikilvægasta boxið til að opna og taka rösklega til í, vegna þess að gamla mýtan um hvað eru konur og hvað eru menn getur ekki gengið upp í því samfélagi sem flestir vilja búa í, þ.e.a.s. samfélagi þar sem við fáum að njóta meira af hæfileikum fólks, samfélag þar sem fólk fær að vera meira það sjálft.

Það sér hver og einn að allir karlmenn eru ekki: Sterkir, tilfinningasnauðir leiðtogar með kynlíf á heilanum. Þaðan af síður eru allar konur: Blíðar, fallegar og umvefjandi.

Samt … samt … eru þetta algengustu orðin sem koma upp í huga fólks þegar talar er um kynin á þeim viðburðum hjá No More Boxes vitundarvakningunni þar sem kynjaboxið hefur verið opnað.

Spyrjum okkur: Hvað gerist ef að þú ert karlmaður og þú ert bara ekkert sterkur, hefur fullt af tilfinningum, vilt ekkert endilega vera leiðtogi og átt fullt í fangi með sjálfan þig og langar bara stundum í kynlíf?

Eða, hvað ef þú ert kona og þú bara nennir ekki að vera að sýna alltaf einhverja hluttekningu, hvað þá að setja allan fókusinn þinn á að vera „falleg“? Þig langar kannski bara meira í meira kynlíf, að vera sterkur leiðtogi og hafa áhrif í samfélaginu?

Hvert og eitt okkar þarf andrými til að draga andann og skoða hvort að sú skilyrðing sem þú hefur ómeðvitað samþykkt út frá kyni eða kynvitund, hvort það sé í raun og veru sú manneskja sem þú vilt vera?

Ísland hefur náð frábærum árangri á sviði jafnréttis kynjanna, og við þurfum að gera betur.

Mín niðurstaða segir mér að heimurinn er að hrópa til Íslands: Sýnið okkur, leiðið okkur og vísið okkur áfram veginn.

Til þess að við getum fyllilega tekið það verkefni að okkur þurfum við, hvert og eitt okkar, að vera tilbúin til að taka til í okkar eigin ster­eótýpu kynjaboxum og átta okkur á okkar eigin ómeðvituðu hlutdrægni sem öllu stjórnar í dag.