Ég er íbúi í Vogahverfi Reykjavík og hef búið þar eða í Laugarneshverfi í tæp fjörtíu ár. Börnin mín gengu í skóla annars vegar í Laugarnesskóla og hins vegar í Vogaskóla. Á þessum tíma var nánast engin aðstaða í framangreindum skólum til iðkunar íþrótta. Nú eru börnin mín að nálgast þrítugt og hefur aðstaðan ekkert breyst. Alla jafna væri ástandið betra ef hverfisfélagið Þróttur ætti íþróttahús, en svo er ekki. Þróttur hefur aðgang að Laugardalshöll, þegar engir aðrir viðburðir eru því til fyrirstöðu. Á hverjum bitnar þetta? Jú, fyrst og fremst börnum og unglingum í hverfinu. Ástandið er svo slæmt að erfitt er að halda úti handboltaþjálfun (á líka við um aðrar inniíþróttir eins og blak, körfubolta og innanhúss fótbolta) enda falla æfingar oft niður vegna einhverra viðburða. Þessir svokölluðu viðburðir eru ekki endilega á vettvangi íþrótta, heldur er einnig um að ræða, sölusýningar, stjórnmálafundi og tónleika svo eitthvað sé nefnt.

Í þar síðustu viku féllu út 3 dagar af 5 í Höllinni þessa vikuna er hún er upptekin alla daga vegna viðburðar. Í næstu viku falla niður 3 dagar vegna annars viðburðar. Því er hvorki hægt að fá þar æfingar né geta nemendur fengið sína íþróttatíma. ÍBR hefur, þegar þetta er ritað, ekki enn fundið annan stað fyrir iðkendur vegna þessara viðburða.

Skólarnir

Til að fólk geri sér grein fyrir aðstöðuleysinu og alvarleika málsins þá er ekki úr vegi að segja frá hvernig aðstaðan er:

  1. Vogaskóli hefur ekki íþróttahús og í raun enga íþróttaaðstöðu og hefur ekki haft síðan Menntaskólinn við Tjörnina flutti við hliðina á skólanum 1977. Skólinn leigir íþróttasal af MS að hluta til en stundaskrá í íþróttum ræðst svolítið af því hvenær hægt er að fá tíma þar.
  2. Laugalækjarskóli hefur ekki yfir neinu íþróttahúsnæði að ráða. Skólanum er skaffað fjármagn til að leigja aðstöðu í Laugardalshöll en þeir tímar hafa ekki forgang gegn öðrum viðburðum þar.
  3. Laugarnesskóli hefur lítinn sal, sem er á stærð við blakvöll en stærð handboltavallar er næstum fimmföld stærð blakvallar. Nemendur á yngsta stigi fá að nýta salinn en miðstigið fær til afnota sal í íþróttahúsi fatlaðra í Hátúni.
  4. Langholtsskóli hefur 162 m2 sal – en 500 nemendur eru á yngsta stigi og miðstigi. Yngsta stigið fær að nýta salinn tvisvar í viku en miðstigið einu sinni. Síðan leigir skólinn sal af TBR fyrir miðstig (einu sinni í viku) og unglingadeild.

Í grein 23.1 í aðalnámskrá grunnskóla segir: Námsgreinin skólaíþróttir gegnir veigamiklu hlutverki í heilsuuppeldi og heilsurækt nemandans allan grunnskólann. Ljóst er að þetta ákvæði aðalnámskrár er margbrotið á nemendum framangreindra skóla.

Hverfisfélagið Þróttur

Það er örrugglega skilningur margra að Þróttur og skólarnir í dalnum hafi Laugardalshöllina ótakmarkað til afnota. En svo einfalt er málið ekki enda fer fram í Laugardalshöll margt annað en íþróttakennsla eða æfingar á vegum Þróttar; Svo sem landsleikir í boltaíþróttum, danskeppnir, bikarleikir í handbolta og körfubolta, stjórnmálafundir, tónleikar, veislur og vörusýningar.

Í stöðumatsskýrslu frá því í janúar sl. virðist Stýrihópur um stefnumótun í íþróttamálum í Reykjavík, alveg hæstánægður með stöðu íþróttamála í borginni: Í skýrslunni kemur t.d. fram að það markmið að: Öll börn og ungmenni hafi jafnan aðgang og möguleika til íþróttaiðkunar og nýtingar íþróttamannavirkja án tillit til efnahags og/eða hvort æft sé með keppni í huga, sé nálægt því að vera fullnægjandi. HVERNIG má þetta vera – á hverju er þetta mat byggt? Eða er þetta bara sett fram til að setja eitthvað fram vitandi að þetta er ósatt?

Jafnframt kemur fram í sömu skýrslu að sæmilegur árangur hafi náðst við að auka samþættingu í nærumhverfi barna og unglinga með sérstakri áherslu á samstarf skóla, frístundastarfs og íþróttafélaga.[i] Hvernig komast menn að slíkri niðurstöðu? Hvernig getur þetta verið niðurstaða þegar íþróttafélögin/hverfisfélög mega ekki einu sinni kynna íþróttir á vegum félaganna í skólum viðkomandi hverfa?

Maður hefur á tilfinningunni að með þessari skýrslu sem og öðrum svipuðum sé meginmarkmiðið að segjast hafa gert eitthvað, fyllt út í rammana í áferðafallegri skýrslu með marglitum súluritum og skífum. Alla vega er niðurstaðan og mat stýrihópsins ótrúverðug, sérstaklega í ljósi þess að íþróttaaðstaða í því hverfi sem hér er til umræðu hefur verið óbreytt í yfir 40 ár og horfir ekki til betri vegar.

Skorað er á borgarstjóra og borgarstjórn að vinna bragarbót á þessu hörmungarástandi eins fljótt og unnt er.

Höfundur er íbúi í Laugardalshverfi.

[i] bls. 37 í Viðauka við Stefnumótun í íþróttamálum Reykjavíkur til 2030 - Stöðumat og aðrar upplýsingar. Drög