Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá erum við öll einhvers konar istar. Það skiptir ekki máli hvort þú sért mikið fyrir stimpla af þessu tagi, það er alltaf hægt að flokka þig undir hinn eða þennan isma. Það er bara svo þægilegt upp á huglæga bókhaldið að gera að geta flokkað fólk í mengi.

Það er ekki þar með sagt að þú þurfir að vera anark eða kapítal, femín eða andfemín – ismarnir eru óteljandi og þurfa hvorki að viðkoma efnahagnum né mannréttindum. Það átta sig ekki allir á því að öllum istum fylgir undantekningarlaust ismi.

Meðfylgjandi er vegvísir um þá lítt þekktari:

Statismi er hugmyndafræði þeirra fálátu kvikmyndaleikara sem leggja upp úr hógværum vinnubrögðum og vilja síður vera í forgrunni á hvíta tjaldinu.

Fallismi nær yfir alla þá nemendur sem kjósa að staldra lengur við og lengja skólagönguna um mislangan tíma. Er nokkur ástæða til að vera að flýta sér?

Hugmyndin um dópisma þarfnast engrar kynningar enda hefur hún fylgt samfélaginu frá upphafi. Vegurinn til glötunar getur jú verið frekar næs á köflum.

Þá á eftir að nefna leslisma, hugmyndafræði þeirra sem vilja hafa röð og reglu á því hvaða bók skuli verða næst fyrir valinu.

Fámennustu istar heims hljóta þó að vera þeir aðdáendur Stuðmanna sem telja Bíólagið vera besta lag sveitarinnar, en þeir aðhyllast auðvitað hesmaþúsmamesmavosmakasmaisma