Ég var mjög þreytt, mér var kalt og ég var svöng.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í við­tölum UNICEF á Ís­landi við 31 barn sem lýsti upp­lifun sinni af því að hafa komið hingað til lands í leit að al­þjóð­legri vernd á árunum 2016 til 2018, mörg þeirra ein og fylgdar­laus.

Í verk­efninu HEIMA skoðaði UNICEF mót­töku barna út frá sjónar­horni barnanna sjálfra.

Það eru þrjú ár síðan UNICEF kynnti niður­stöður verk­efnisins, sem leiddu í ljós marg­vís­legar brota­lamir í mót­töku fylgdar­lausra barna sem hingað koma í leit að betra lífi.

Síðan þá hefur sorg­lega lítið gerst og börnin búa á­fram við úr­ræða- og öryggis­leysi.

Nú síðast gerðist það að ungur drengur sem kom hingað sem barn var vísað úr landi ör­fáum mánuðum eftir 18 ára af­mælið.

Við eigum að geta gert betur.

Nú á sunnu­daginn, 20. nóvember, er al­þjóða­dagur barna, af­mælis­dagur Barna­sátt­málans.

Sam­kvæmt Barna­sátt­málanum, sem lög­festur hefur verið hér á landi, eru öll börn jöfn. Enn fremur segir að allar á­kvarðanir eða ráð­stafanir stjórn­valda er varða börn skuli byggðar á því sem börnum er fyrir bestu.

Fjöldi fylgdar­lausra barna sem koma hingað til lands skiptir tugum og má ætla að sá fjöldi muni aukast á næstunni í ljósi aukins fjölda fólks á flótta um allan heim.

Þessi börn eiga rétt á um­önnun, menntun, frí­stundum, öryggi, heilsu­gæslu og úr­ræðum barna­verndar þar til þau hafa fengið nægan stuðning til sjálf­stæðs lífs.

Líkt og þau börn sem hér fæðast.

Mis­munum er ekki í boði. Barna­sátt­málinn er skýr um það að öll börn eru jöfn.

Ís­land mælist sem eitt allra besta land í heimi fyrir börn. Nú stendur upp á stjórn­völd að tryggja að öll börn hér á landi njóti sinna réttinda og fái jöfn tæki­færi til mann­sæmandi lífs.