Fyrir lok vorþings voru samþykkt ríflega 130 lagafrumvörp á Alþingi. Meðal þeirra voru lög um breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara voru jafnframt felld úr gildi. Byggðastofnun verður eftirleiðis falið á grundvelli reglugerðar ráðherra að annast úthlutun styrkja vegna flutningskostnaðar olíuvara. Þessar breytingar skipta ekki sköpum fyrir þjóðarhag en hafa þýðingu fyrir íbúa í dreifðum byggðum á Íslandi.

Eflaust kann einhverjum að finnast tímaskekkja að viðhalda flutningsjöfnun á jarðefnaeldsneyti sem samfélagið er markvisst að hverfa frá. Hafa verður þó í huga að framboð á orkugjöfum til samgangna á byggðarlega viðkvæmum stöðum er misjafnt. Enn verður því ekki við komið að nýta stór og þung, vélknúin tæki með nýjum orkugjöfum, til dæmis í landbúnaði, í vöruflutningum og smábátaútgerð sem er snar þáttur á ýmsum svæðum á landsbyggðinni. Þeir tímar munu koma að þarna verði breytingar á, en á meðan er eðlilegt að leitað sé viðleitni til jafnræðis. Lykilatriði er að lagabreytingin hafi ekki letjandi áhrif, að ekki verði gefinn minnsti afsláttur af markmiðum Íslendinga um orkuskipti í samgöngum. Á þessu sviði er þróunin ör og spennandi lausnir handan við hornið.

Enginn vafi er á að með þessari lagabreytingu er verið að létta álögum af olíufélögunum. Til þessa hafa þau verið að greiða, eða réttara sagt kaupendur eldsneytis, ríflega 400 milljónir árlega með sérstöku flutningsjöfnunargjaldi en samkvæmt nýjum lögum fellur það burt. Mun lægri fjárhæð rennur til flutningsjöfnunar eða 175 milljónir króna eins og staðan er um þessar mundir og verður innheimt með breyttum vörugjöldum af olíuvörum.

Þetta þýðir að í það minnsta 225-240 milljónir verða eftir hjá olíufélögunum, í boði ríkisstjórnarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hvort neytendur fá að njóta þessara hagstæðu breytinga í lægra verði á eldsneyti. Ef hinn elskaði samkeppnismarkaður sem núverandi stjórnvöld hafa svo mikla trú á virkar, ætti það sannarlega að gerast.