Fátt hefur verið endurtekið oftar í sögunni en frasinn um að sagan endurtaki sig. Eitthvað er hæft í því en augljóslega getur sagan ekki endurtekið sig eins og talandi páfagaukur sem tönnlast á sama orðinu um að hann vilji kex. Það væri nær að segja að stundum verði bergmál í sögunni. Og þó ekki einu sinni það, bergmál er daufari endurtekning hins sama. Það sem örugglega má segja er að eitthvað sem hendir minnir stundum á annað sem hefur áður hent.

Leikmanni finnst svolítið eins og greinendur innrásar Rússa í Úkraínu gangi um of út frá endurtekningu sögunnar: Það sé komið nýtt kalt stríð, NATÓ og Varsjárbandalagið takist á, gamli KGB-maðurinn sé kominn upp í sálarlífi Pútíns, verri en nokkru sinni, nú sé ætlunin að endurreisa Sovétið. En aðstæður eru breyttar og nákvæmlega hið sama getur aldrei endurtekið sig.

Kalda stríðið er að baki. Nútímaleg stríð geta ekki beinlínis tekið mið af landvinningastríðum til forna eða nýlendustríðum síðari tíma, þótt þau séu eigi að síður stríð. Grimmdin er sjálfri sér lík, óhugnaðurinn er sá sami og illskan er söm við sig. En aðstæður eru aðrar. Stríð nútímans hafa um nokkuð langa hríð verið tengd olíu og gasi og á síðustu tímum má ganga að því vísu að þau snúist einnig um vatn, ekki aðeins í skilningi landgæða heldur vegna yfirvofandi ógna loftslagsbreytinga með tilheyrandi þurrkum, landauðn, hamfarahlýnun.

Þegar Rússar tóku Krímskaga árið 2014 voru tvö ár liðin frá því að á skaganum fundust auðugar gas- og olíulindir. Til að hefja vinnslu á þessum auðlindum þarf hins vegar að vera lífvænlegt í landinu. Til þess þarf vatn. Það sem gerðist eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga var að Úkraínumenn skrúfuðu fyrir streymi úr Danparfljóti (Dnjepr) sem áður var veitt yfir á Krímskaga og var langsamlega mikilvægasta uppspretta vatns á svæðinu. Fljótið er eitthvert það stærsta í heimi. Rússum hefur gengið afar illa að útvega nýjar leiðir til að koma vatni á Krímskaga.

Stundum er eins og greinendur geti ekki slitið sig frá Sovétríkjunum þegar þeir tala um efnahag Rússlands. Rússneskur efnahagur er sambærilegur við miklu minni og fámennari lönd í Vestur-Evrópu, ekki svo mikið stærri en spænskur efnahagur. Ef Rússum tekst að koma þeim hluta Úkraínu undir sig sem nær frá suðurstrandlengjunni og svolítið inn í land eru komnar forsendur til að veita vatni inn á Krímskaga og hefja þar olíuvinnslu. Kænugarður er ekki inni í þeirri mynd.

Samkvæmt þessari tilgátu gæti Pútín komið út úr sínu feigðarflani standandi í fæturna á heimavelli sínum. Eigum við að leyfa honum það? spyr þá kannski einhver. En hvað merkir „leyfa“? Það er ekki eins og Vesturlönd beiti ekki Rússa efnahagsþvingunum. Hernaðaraðgerðum fylgir sama hætta á gereyðingarstríði og hefur lengi gert.

Líklega ná Rússar suðurhluta Úkraínu á sitt vald og láta þar við sitja, enda mestir hagsmunir í vatni og olíu. En vel að merkja er það eitt að giska eftir líkum á útkomu stríðs, annað að álíta hana æskilega. Það er ekki æskilegt að alræðisríki öðlist möguleika á að vinna olíu og geri það að hluta til í krafti kjarnorkuvopna sem hafa að geyma Úran, sem mætti endurnýta til að framleiða umhverfisvænni orku í kjarnorkuverum, svo ekki sé minnst á möguleikann á að knúa verin með hinu mun vænlegra frumefni Þóríum sem mörg lönd horfa til.

„Frelsi, jafnrétti, bræðralag“: Efnisatriði slagorðs frönsku byltingarinnar fara að tæmast. Í frelsinu leika olíuvinnslufyrirtæki lausum hala, vilja byggja varnargarða fyrir olíuvinnslustöðvar við strendur Bandaríkjanna til að vernda þær fyrir afleiðingunum, hækkandi yfirborði sjávar, á kostnað skattgreiðenda. Byggja skjólvegg meðan þau grafa sér eigin gröf. Þau hafa stórgrætt á Úkraínustríðinu, margfaldað gróða sinn. Og jafnréttið var auðvitað algert í gúlaginu, allir voru jafnfeigir, og gúlagið knúði Sovétið lengi vel eins og hver annar orkugjafi í alræðisríki sem nú leitar sér grímulaust að nýju eldsneyti. Þótt fólki geti fyrirgefist að hafa bundið vonir við Pútín í upphafi er löngu ljóst að hann stjórnar alræðisríki. Hvorki kapítalískt frelsi né kommúnískt alræði hafa gert neitt fyrir lífvænleika jarðarinnar til frambúðar né eru líkleg til að gera það.

Kannski er kominn tími til að prófa sig áfram með tilbrigði við lýðræði sem á meira sameiginlegt við það eina sem eftir stendur af slagorði frönsku byltingarinnar, bræðralag.