Með þeirri undanþágu sem frumvarpið gerir ráð fyrir myndu forsendur fyrir rekstri ÁTVR að öllum líkindum bresta.“ Svo segir í afar hjartnæmri umsögn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um tillögur sem nú liggja fyrir Alþingi um að leyfa smærri brugghúsum að selja ölið sitt á framleiðslustað. Það vekur enga sérstaka furðu að ríkiseinokunarverslunin sé mótfallin auknu frjálsræði í viðskiptum. Ætli danskir kaupmenn hefðu ekki skilað inn svipaðri umsögn vegna frumvarps um afnám einokunarverslunar Dana árið 1787?

Maður hefði samt einhvern veginn haldið að hlutunum væri öfugt farið. Yfirleitt eru það einkaaðilarnir sem eiga í vök að verjast gegn ríkisfyrirtækjunum, sem öll starfa í skjóli hins opinbera með botnlausa sjóði. Þetta þekkja íslensk fjölmiðlafyrirtæki vel. Nú er það hins vegar frjálsa verslunin sem mun koma niður á ríkisfyrirtækinu með óbilgjörnum hætti. Ég meina, hver hefur ekki samúð með því sjónarmiði einokunarrisans að aukið verslunarfrelsi muni hugsanlega leiða til þess að viðskiptavinirnir ákveða frekar að versla annars staðar? Þetta er beinlínis ómannúðlegt gagnvart ÁTVR, ef maður hugsar út í það. Engan skal þó undra þótt ríkisstofnun, sem hefur það lögfesta markmið að takmarka aðgengi að áfengi á sama tíma og hún hreykir sér af miklu vöruúrvali í verslunum sínum, skuli vera rugluð í ríminu.

Jafnvel hörðustu karlmenn geta ekki haldið aftur af tárunum þegar lesin er 25 blaðsíðna baráttuumsögn ríkisstofnunarinnar fyrir áratugalöngu einokunarvaldi sínu í þeirri viðleitni að leggjast gegn því að örfá krúttleg brugghús á landsbyggðinni fái að selja nokkra bjóra til þyrstra ferðalanga. Svokölluð þriggja vasaklúta umsögn sem lætur höfunda The Notebook líta út fyrir að vera kaldrifjaða.