Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þjóðarsálinni sveiflast undanfarnar vikur. Ekki síst síðustu daga þegar jarðhræringar þær sem haldið hafa henni í heljargreipum sprungu loks út í eldgosi sem sérfræðingar hafa skipst á að spá fyrir um eða afskrifa.

Í kvöldfréttatíma RÚV á föstudag, aðeins rúmum tveimur klukkustundum áður en ljóst varð að eldgos væri hafið, birtist frétt þess efnis að líkur á gosi færu minnkandi og jarðeðlisfræðingur Veðurstofu Íslands staðfesti það í viðtali. Viðtali sem hann vildi líklega að hann hefði afþakkað, svona eftir á að hyggja, enda voru gárungarnir duglegir að endurbirta fleyg orð hans: „Á síður von á eldgosi.“

En það var auðvitað sama hvað fjölmiðlafólk herjaði á yfirkeyrða sérfræðingana til að fá þá til að gefa upp líkur á gosi eða áframhaldandi jarðhræringum, þeir höfðu engin ákveðin svör, aðeins menntaðar getgátur. Því þrátt fyrir allt er ómögulegt að spá fyrir um slíkt með einhverri vissu. Við krefjumst hins vegar nýrra frétta með reglulegu millibili og endurhlöðum vefmiðla um leið og við finnum jörðina undir okkur titra svo fréttamenn hafa reynt að samræma jarðfræðilegan tímaskala við kröfuna um nýjar upplýsingar strax.

Þjóðarsálin engist fram og til baka, við þráum umræðu um eitthvað annað en heimsfaraldur; erum spennt fyrir tilslökunum sóttvarnayfirvalda um leið og við finnum kvíða yfir fjölgandi smittilfellum og opnun landamæra læsast um okkur. Við vitum varla lengur hver við erum, enda á undarlegan hátt ekki fyllilega við stjórnvölinn í okkar eigin lífi. Forráðaaðilar okkar, móðir náttúra og þríeykið, halda þar fast um taumana og við sveiflumst með.

Að því sögðu þá var liðin helgi hressandi. COVID-umræðan lét rækilega í minni pokann fyrir stórfenglegum eldsumbrotum sem þó eru svo lítil að tilbreytingasvelt þjóðin hætti sér upp að þeim, grillaði sér jafnvel pylsur, steikti sér egg og tók sjóðheitar sjálfur til birtingar á samfélagsmiðlum.

Þeir sem heima sátu hneyksluðust margir hverjir á óðagotinu og óráðsíunni og enn aðrir hneyksluðust á þeim sem hneyksluðust. En, eins ótrúlegt og það kann að hljóma, þá hefði mátt hnykkja á nokkrum staðreyndum milli frétta af hugsanlegu gosi: Því að ekki sé ráðlegt að ganga of nærri eldgosi vegna bruna- og gashættu. Því að ekki sé ráðlegt að ganga á fjöll á Íslandi í mars nema vera vel búinn. Og að lokum að fólki hættir til að villast á fjöllum.

Rétt eins og margir vonuðu fengum við eldgos, lítið og túristavænt gos sem lítil hætta stafar af en gleður augað.

Nú vantar bara að bólusetning heimsbyggðarinnar gangi sem hraðast svo nýta megi gosið sem aðdráttarafl fyrir ferðaþyrsta náttúruunnendur.

Áfram veginn!