Eru illmenni einfaldlega góðmenni með fötlun? Í síðustu viku stóð Íslensk erfðagreining fyrir fræðslufundi um upptök illskunnar. Var gestur fundarins Simon Baron-Cohen, prófessor í þróunarsálfræði, sem rannsakað hefur mannlega illsku. Hann skilgreinir illsku sem skort á samkennd. Í stað þess að flokka fólk sem gott og illt telur hann nær lagi að staðsetja hvert og eitt okkar á rófi samkenndar. „Fólk getur haft litla samkennd, í meðallagi eða óvanalega mikla samkennd,“ sagði Baron-Cohen í erindi sínu.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tók undir með Baron-Cohen í viðtali við Fréttablaðið. „Illska er í raun og veru fötlun, þó að við meðhöndlum hana ekki sem slíka. Á til dæmis að refsa mönnum fyrir afleiðingar þess að glíma við slíka fötlun?“

Svo kann að fara að einn daginn hættum við að refsa fólki fyrir illvirki sem þjáist af svo miklum skorti af samkennd að það er staðsett neðst á samkenndar-ásnum. Nýverið hefur hins vegar tekið að bera í auknum mæli á því að fólki sé refsað fyrir að vera á hinum enda ássins.

Glæpavæðing samkenndarinnar

Hinn 31. janúar síðastliðinn bankaði þýska lögreglan upp á hjá Christian Hartung, sóknarpresti í Þýskalandi. Prestinum var gefið að sök að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn frá Súdan. Hartung sagði „bráða hættu hafa steðjað að fólkinu“ sem margt glímdi við lífshættulega sjúkdóma. Hann sagði framferði lögreglunnar „tilraun til að hræða“ sig en Hartung starfar á svæði þar sem þýski þjóðernisflokkurinn Alternative für Deutschland nýtur mikils fylgis.

Presturinn í Þýskalandi er ekki sá eini sem gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist fyrir að koma sambræðrum til hjálpar. Ný könnun sýnir að mannleg samkennd er í auknum mæli talin ámælisverð. Tilfellum í Evrópu þar sem almennir borgarar eru ákærðir, dæmdir og sektaðir fyrir almenna manngæsku í garð flótta- og farandfólks fer snarfjölgandi. Vefurinn Open Democracy hefur tekið saman 250 dæmi um slíkt á síðustu fimm árum. Þar á meðal eru spænskur slökkviliðsmaður sem átti yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsi í Grikklandi fyrir að bjarga flóttafólki frá drukknun, franskur ólívuræktandi sem var handtekinn fyrir að gefa farandfólki mat við landamæri Ítalíu og sjötug dönsk amma sem var dæmd og sektuð fyrir að gefa fjölskyldu með ung börn far í bíl sínum.

Nýjasta skrefið í átt að glæpavæðingu samkenndarinnar var hins vegar stigið á Ítalíu í vikunni. Ítalska ríkisstjórnin samþykkti tilskipun sem gerir það formlega refsivert að bjarga flótta- og farandfólki á Miðjarðarhafinu. Hunsi hjálparsamtök reglurnar mega þau eiga von á háum sektum. Notendur íslenskra samfélagsmiðla fordæmdu ráðstöfunina nokkuð einróma. En höfum við Íslendingar samkenndina eitthvað meira í heiðri en Ítalir?

Átök góðs og ills

Í apríl síðastliðnum voru Jórunn Edda Helga­dóttir og Ragn­heiður Freyja Kristínar­dóttir dæmdar í þriggja mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir að standa upp í flugvél Icelandair og mótmæla brottvísun flóttamanns sem verið var að flytja úr landi með vélinni. Átti að senda hælisleitandann til Nígeríu en þaðan hafði hann flúið í kjölfar þess að Boko Haram liðar veittu honum stungusár og myrtu bróður hans.

„Það er manninum mikilvægt að skilja sjálfan sig sem dýrategund og samkenndin skiptir ótrúlega miklu máli í mannlegum samskiptum,“ sagði Kári Stefánsson um rannsóknir Baron-Cohen. „Mannkynssagan er þessi samskipti og átök góðs og ills.“

Við lifum nú í veröld þar sem hægt er að gera til okkar þá lagalegu kröfu að við horfum upp á aðra manneskju drukkna án þess að aðhafast nokkuð. Ef mannkynssagan verður í framtíðinni skoðuð á rófi samkenndar er hætt við að nútíminn hljóti greininguna: öld siðblindingjans.