Vegagerðin hefur ýtt úr vör vitundarátaki um öryggi starfsfólks við vegavinnu undir yfirskriftinni Aktu varlega! – mamma og pabbi vinna hér. Í því sambandi hafa verið hönnuð eftirtektarverð skilti sem munu vafalaust vekja athygli vegfarenda í sumar.

Ástæðan fyrir því að farið er í þetta átak núna er sú aukna hætta sem starfsfólki stafar af hraðakstri í gegnum vinnusvæði. Þrátt fyrir að öll framkvæmdasvæði séu vel merkt með m.a. hraðalækkandi skiltum og gátskjöldum brennur við að ökumenn virði ekki hraðatakmarkanir og aki allt of hratt miðað við aðstæður. Það eykur mjög hættu á slysum á fólki og oft hefur hurð skollið nærri hælum.

Sumarið er gengið í garð með tilheyrandi framkvæmdum um allt land, bæði í þéttbýli og á þjóðvegum. Því þykir okkur hjá Vegagerðinni mikilvægt að minna á að það skiptir máli að fara varlega í kringum fólk sem vinnur á vegum úti. Þarna eru að verki mömmur og pabbar, frændur og frænkur, afar og ömmur eða í stuttu máli ástvinir einhverra og vinnudagurinn er unninn við erfiðar aðstæður í umferðinni. Við viljum með þessum áberandi skiltum auka nándina og skilninginn á því að tillitssemi okkar varðar þetta fólk miklu og að um líf og dauða getur verið að ræða ef ekki er ekið varlega í gegnum vinnusvæði.

Vegagerðin leggur mikla áherslu á öryggi bæði vegfarenda og starfsfólks og stöðugt er unnið að endurbótum. Sem dæmi hefur tækjakostur verið aukinn verulega og varnarbifreiðar með árekstrarvörn hafa sannað gildi sitt á fjölförnum vegum. Öryggisbúnaður starfsfólks hefur verið bættur, öryggisstefna er í sífelldri endurskoðun, áhættumat hefur verið unnið fyrir ýmsa starfsemi og haldið verður áfram á þeirri braut.

Okkur er umhugað að stuðla að góðri öryggismenningu meðal okkar starfsfólks og því hefur verið unnið að því í vetur að fræða fólk um hvað einkennir góða öryggismenningu og hvernig við náum að komast á þann stað að vera framúrskarandi í öryggismálum.

En það eru ekki aðeins við ein sem getum gætt að öryggi okkar starfsfólks, og verktaka okkar. Þar þarf samhent átak og viðhorfsbreytingu meðal allra vegfarenda og við vonumst til að þetta vitundarátak verði skref í rétta átt.

Til að kynna vitundaátakið hélt Vegagerðin morgunverðarfund þann 7. júní síðastliðinn. Þar skrifuðu Vegagerðin og samstarfsaðilar undir viljayfirlýsingu en með Vegagerðinni í þessu átaki eru Ríkislögreglustjóri, Samgöngustofa og verktakafyrirtækin Colas Ísland, Ístak og Borgarverk.

Átakið Aktu varlega! – mamma og pabbi vinna hér stendur yfir í sumar frá 7. júní til 15. september. Ökum varlega - komum heil heim!

Höfundur er forstjóri Vegagerðarinnar