Við­horf ís­lensku mann­skepnunnar breytast oft hægar en veru­leikinn í kringum skoðanir okkar.

Eins­leitni Ís­lendinga skóp fyrr á tímum sam­fé­lags­sátt­mála þar sem þarfir, upp­runi og skoðanir voru meira og minna sami grautur í sömu skál.

Þetta voru „ís­lenskar“ á­herslur, trúar­legar og menningar­legar. Við tókum vita­skuld upp ýmis gildi frá Skandinavíu og Evrópu og urðum amerískari en þjóðir í kring. En sem ein­angruð ey­þjóð töldum við lengi vel að hið sér­ís­lenska væri best. Um langt skeið var jafn­vel hland­blaut vos­búð upp­hafin í sögu­bókum.

Móður­máls­kennsla tók mark af þessari eins­­leitni. Hún miðaðist við að nánast öll börn í skóla­kerfinu fæddust á Ís­landi og þau kynnu ís­lensku.

En nú eru breyttir tímar.

Í Stóru upp­lestrar­keppninni fyrir skömmu fengu nem­endur að spreyta sig á ljóðum eftir ís­lenska höfunda. Þrjú börn af er­lendum upp­runa lásu upp­hátt sama daginn í sama skólanum eftir Jónas Hall­gríms­son: Kveður í runni, kvakar í mó/kvikur þrasta­söngur/eins mig fýsir alltaf þó/aftur að fara í göngur.

Fal­legt.

Glímu barna við fram­burð orðanna verður best lýst með orðinu hetju­dáð.

En hvað með inn­tak þessa texta? Að fýsa alltaf aftur í göngur?

Textarnir vekja spurningar um hvort við­horf hafi setið eftir á sama tíma og nýtt fjöl­menningar­legt lands­lag er löngu orðið að veru­leika.

Að­eins örfá prósent þjóðarinnar búa nú orðið í dreif­býli. Jafn­vel inn­fædd börn eiga erfitt með að tengja við þá þjóð­ernis­rómantík að smala ís­lenskum sauð­kindum á fjöllum að hausti. Hvað má þá um hin börnin segja?

Ein spurning er hvort svona keppni hverfist ekki að nokkru um hvort börnin tengi við texta sem þau lesa upp.

Önnur spurning er hvort náms­efni grunn­skólanna og á­herslur í skóla­starfi hafi tekið mið af þeim sam­fé­lags­breytingum sem orðið hafa.

Markast við­horf okkar af eins­leitni liðins tíma? Þeirri eins­leitni sem við, ráðandi kyn­slóðir, ó­lumst upp við? Er ís­lenskan bara „okkar“?

Í þessu sam­hengi má geta þess að dæmi eru um reyk­víska grunn­skóla þar sem ríf­lega helmingur nem­enda er með annað móður­mál en ís­lensku. Utan höfuð­borgar­svæðisins er hlut­fallið sums staðar enn hærra.

Allt vekur þetta spurningar um hvort okkur hefur tekist að um­faðma fjöl­breyti­leikann sem skyldi. Fjöl­breyti­leikann sem er gjöf fyrir áður eins­leita þjóð.

Er kannski komið gott af rómantískum við­horfum til ís­lensku sauð­kindarinnar?