Í vikunni birtist frétt í Frétta­blaðinu undir fyrir­sögninni „Í­lengist í dóms­málum“. Fjallaði hún um að nýr dóms­mála­ráð­herra yrði lík­lega ekki skipaður fyrr en eftir að Al­þingi fer í sumar­frí. Fréttin lét lítið yfir sér. Hún fangaði hins vegar eitt stærsta mein stjórn­mála sam­tímans.

Dóms­mála­ráðu­neytið til­kynnti ný­verið að ís­lensk stjórn­völd ætluðu að vísa Lands­réttar­málinu svo­kallaða til yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu en í mars komst Mann­réttinda­dóm­stóllinn að þeirri niður­stöðu að ó­lög­lega hefði verið staðið að skipan dómara við Lands­rétt. Í kjöl­farið steig Sig­ríður Ander­sen til hliðar sem dóms­mála­ráð­herra og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir tók við em­bættinu tíma­bundið sem hún sinnir sam­hliða starfi sínu sem ráð­herra ferða­mála, iðnaðar og ný­sköpunar.

Í fyrr­nefndri frétt kom fram að sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins sé lík­legasta á­stæðan fyrir töf á varan­legri skipun dóms­mála­ráð­herra sú að verið sé að reyna að „halda ró“ innan þing­flokks Sjálf­stæðis­flokksins „en þeir þing­menn sem hafa á­huga á em­bættinu séu lík­legri til að vera sam­starfs­fúsir meðan em­bættinu er ó­ráð­stafað“. Þar að auki er Sig­ríður Á. Ander­sen „sögð mjög á­fram um að setjast aftur í stól dóms­mála­ráð­herra“.

Ó­vissu­á­stand

Lands­réttar­málið veikti til­trú al­mennings á dóms­kerfinu. Á­frýjunin til yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stólsins fram­lengir réttar­ó­vissu í landinu. Til hvaða ráð­stafana hyggjast stjórn­völd grípa?

Að því er virðist: Ekki nokkurra. Ingi­björg Þor­steins­dóttir, for­maður Dómara­fé­lagsins, lýsti ný­verið yfir á­hyggjum af „því ó­vissu­á­standi sem uppi er varðandi Lands­rétt“ og sagðist „sakna þess að sjá ekki frekari á­kvarðanir um það hvað gera skuli nú þegar og til næstu fram­tíðar“.

Daginn sem Sig­ríður Ander­sen steig til hliðar sem dóms­mála­ráð­herra veitti Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra og for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, fjöl­miðlum við­tal. Hann sagði dóm Mann­réttinda­dóm­stólsins hafa komið sér „í opna skjöldu“ og eins og aðrir virtist hann lítið vita hvað gerðist næst en margir hlutir yrðu bara „að koma í ljós“. Eitt var hann þó alveg með á hreinu: Annað­hvort yrði fenginn „ráð­herra úr ríkis­stjórninni til að gegna em­bætti“ dóms­mála­ráð­herra eða „það kæmi ein­hver úr þing­flokki Sjálf­stæðis­flokksins í stól dóms­mála­ráð­herra“.

Ó­skamm­feilnir popúlistar

„Það er ekkert sem stjórn­mála-elítan gerði ekki, lygi ekki til um, til að við­halda yfir­burðum sínum og völdum á kostnað okkar hinna,“ sagði Donald Trump í kosninga­bar­áttu sinni.

Ó­skamm­feilnir popúlistar ná nú undir­tökum víða um heim – Trump í Banda­ríkjunum; Brexit-liðar í Bret­landi. Veg­ferð þeirra til valda er víðast hvar sú sama. Þeir nýta sér sí­vaxandi tor­tryggni í garð stjórn­mála­fólks til að grafa undan hefð­bundnum stjórn­málum, opin­berum stofnunum og lýð­ræðis­legum leik­reglum. Nálgunin er ekki úr lausu lofti gripin. Ó­sjaldan virðist stjórn­mála­mönnum meira annt um eigin hag en hag þeirra sem þeim var falið að gæta.

Lands­réttur brennur og það er enginn að slökkva eldinn. Þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins stara á dóms­mála­ráðu­neytið eins og hýenur sem horfa sultar­augum á hræ. Þótt for­maður Sjálf­stæðis­flokksins hafi ekki hug­mynd um hvað er að gerast veit hann samt alltaf eitt: Það þarf ekki fag­mann í verkið heldur flokk­sjálk. For­sætis­ráð­herra yppir öxlum eins og pólitískar út­býtingar séu Mónópólí – leik­reglurnar standa í bæklingnum og maður fylgir þeim bara.

Við Ís­lendingar höfum ekki enn eignast okkar eigin Trump. Það má þó vel vera að hann sé nú þegar kominn fram á sjónar­sviðið; að hann bíði á­lengdar, í felum fyrir allra augum, svona eins og „Hvar er Valli?“ (nei, ég er ekki að tala um Loga Má Einars­son þótt hann sé gjarnan í röndóttri peysu).

Þangað til Trump okkar Ís­lendinga kýs að láta til skarar skríða undir­býr Sjálf­stæðis­flokkurinn jarð­veginn fyrir mál­flutning hans og leikur hlut­verk stjórn­mála-elítunnar sem er til­búin til að gera allt til að „við­halda yfir­burðum sínum og völdum á kostnað okkar hinna“.