Við Íslendingar tollum að jafnaði í tískunni. Nýverið hefur okkur hins vegar gengið illa að sníða heitustu hegðunina í útlöndum að aðstæðum heimafyrir.

Í síðasta mánuði var styttu Ásmundar Sveinssonar af landkönnuðinum Guðríði Þorbjarnardóttur stolið af stalli sínum við Laugarbrekku á Snæfellsnesi. Verkið, sem er talið fyrsta íslenska styttan af nafngreindri konu og sýnir Guðríði og nýfæddan son hennar í Ameríku í kringum árið 1000, birtist stuttu síðar fyrir utan Nýlistasafnið innan í heimasmíðaðri geimflaug.

Um var að ræða gjörning tveggja listakvenna, sem sögðu styttuna rasíska og vildu breyta henni í geimrusl.

Síðustu ár hefur styttum af rasistum og þrælahöldurum verið steypt af stalli víða um heim. Margir klóruðu sér hins vegar í höfðinu yfir íslenskri útgáfu mótmælabylgjunnar. Hvað höfðu Ásmundur og Guðríður unnið sér til saka? Listakonurnar viðurkenndu að hvorki myndhöggvarinn né viðfangsefni hans hefðu verið rasistar. Þær héldu þó ásökunum sínum til streitu og túlkuðu eigin gjörning sem „átök um óuppgerðan menningararf“.

Afrek eins, harmur annars

Hinn 8. júní árið 793 horfðu munkarnir á eyjunni Lindisfarne við norðausturströnd Englands til sjávar. Utan úr þokunni birtist óvættur, höggormur eða dreki sem beraði tennurnar. Eftir því sem skepnan nálgaðist land varð munkunum þó ljóst að ekki var um að ræða eiginlegt skrímsli heldur skip, stærra og hraðskreiðara en þeir höfðu nokkru sinni séð.

Drungi himins speglaðist í hjálmum þungvopnaðra manna sem stukku frá borði og þustu upp ströndina. Örvæntingaróp fylltu loftin er innrásarherinn slátraði munkunum einum af öðrum. Blóð þakti veggi kirkjunnar. „Heiðingjar tröðkuðu á líkum dýrlinga í musteri Guðs eins og mykju á götu.“ Gestirnir yfirgáfu eyjuna klyfjaðir gersemum klaustursins.

Árásin á eyjuna Lindisfarne er talin marka upphaf víkingaaldar í Evrópu. Frá sjónarhóli okkar Íslendinga eru forfeður okkar víkingarnir holdgervingar hugrekkis og framtakssemi. Í grunnskóla er okkur sagt frá heimshornaflakki þeirra, sjálfsbjargarviðleitni og hæfileika þeirra á sviði skipasmíða. Látið er sem strandhögg hafi verið þess tíma verslunarleiðangur í Kringluna og stúlknarán á Írlandi hafi verið í ætt við að pikka upp skvísu á Kaffibarnum.

Í nýlegri kennslubók í Íslandssögu sem Námsgagnastofnun gaf út segir: „Víkingaöld er að mörgu leyti merkilegasta tímabilið í sögu Norðurlanda en afrek norrænna manna á þeim tíma gerðu þá að mestu heimsborgurum Evrópu.“

En „afrek“ eins er harmur annars. Í breskum grunnskólum læra börn um Alfegus erkibiskup af Kantaraborg, sem víkingar drápu eftir að hafa farið ránshendi um dómkirkjuna hans og brennt hana til grunna. Í augum þeirra voru víkingarnar ofbeldismenn, þjófar og þrælasalar.

Margar þjóðir endurmeta nú sögu sína. Styttur falla; hetjudáð verður hrottaskapur; hnigið heimsveldi þar sem „sólin settist aldrei“ kiknar nú af skömm yfir athæfi sínu í nýlendum þar sem „blóðið storknaði aldrei“. Langi okkur Íslendinga til að taka þátt í þeirri vegferð er ekki nokkur þörf á listrænni oftúlkun í leit að gömlum syndum.

Fyrir framan nefið á okkur er hneyksli sem við erum ekki aðeins sek um að hunsa heldur líka hagnast á.

Á stöllum um borg og bý upphefjum við hjálmklædda blóðhunda fortíðar án þess að gefa því nokkurn gaum. Að auki gerum við okkur víkingana að féþúfu en líkneski af þeim fylla hillur helstu túristabúða. Við Íslendingar stöndum vel undir okkar eigin styttu-hneisu. Þyrsti fólk í átök um „óuppgerðan menningararf“ er af nógu að taka án þess að mannorð myndhöggvara og viðfangsefnis hans sé atað aur að ósekju. ■