Kórónaveiran gefur okkur engin grið. Við lokuðum landamærunum í sumar og vonuðum það besta en það dugði ekki til. Nú er blásið til sóknar varðandi okkar eigin persónulegu sóttvarnir.

Þannig fengu til dæmis hinir háværu og raddsterku skýr skilaboð í gær frá landlækni um að nota inniröddina þar sem veiran smitast frekar þegar talað er hátt.

Knúsarar og handabandsóða fólkið mun áfram þurfa að gæta sín enda er sá sem mætir á mannamót baðandi höndunum framan í nærstadda bara tifandi tímasprengja á þessum síðustu og verstu.

Sömu sögu má segja um þá sem finnst gott að kíkja á djammið og fá sér einn, jafnvel tvo og öskursyngja nokkur lög. Einu sinni þótti tilvalið að birta myndir úr slíkum leiðangri á samfélagsmiðlum en í dag yrði því ekki andað við nokkurn mann ef maður hefði til dæmis slysast í karókí á írskum pöbb.

Við stefnum hraðbyri í einhvers konar útópíu sýklahrædda einfarans, þar sem blaðskellandi og hávært gleðifólk á undir högg að sækja. Þetta er okkar eigið hikikomori en það er ástand sem japönsk heilbrigðisyfirvöld hafa skilgreint og tengja við ört stækkandi hóp af ungu japönsku fólki sem vill helst búa eitt og einangra sig frá samfélaginu mánuðum og jafnvel misserum saman án þess að nein sýnileg ástæða eða orsök sé fyrir hendi.

Þetta draumaland einfarans á þó ekki eftir að vara að eilífu. Þegar við komum loks böndum á kórónaveiruna bíður okkar mikið verk. Hér þarf að snúa hjólum atvinnulífsins í gang á ný en ekki síður hjólum félagslífsins. Slíkt mun útheimta ómælda vinnu við knús og karókísöng.