Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, freistar þess að stýra umræðu, um ásakanir á hendur sér um ritstuld, á Facebook-síðu sinni í stað þess að svara fyrir þær í fjölmiðlum. Með því móti losnar hann við að fá krefjandi spurningar blaðamanna. Aðeins ein skoðun er leyfð á síðu Ásgeirs. Þar er talað um aðför öfundsjúkra hælbíta og minnipokamanna, Gróu á Leiti, rógburð, ærumeiðingar og samsæri sem miði að því að velta Ásgeiri úr stóli seðlabankastjóra. Því miður þá hafa flestir fjölmiðlar aðeins birt fréttir af einræðum hans, þar sem Ásgeir er m.a. lýstur saklaus, án þess að bera það undir mig. Það er bagalegt þegar svo er fyrir blaðamennsku komið. Ritstjórn Fréttablaðsins fær síðan bágt fyrir að sinna skyldu sinni og fjalla um málið á upplýsandi hátt þar sem sjónarmið beggja koma fram. Síðan þegar í harðbakkann slær þá er hægt að kaupa „sérfræðiálit“ fyrir rétt verð. Þetta sýnir vel hve auðvelt er fyrir efnað fólk í valdastöðum að stýra opinberri umræðu sér í hag.

Varnartilburðir Ásgeirs einkennast af fálmkenndum málflutningi. Fyrstu viðbrögð hans, við ásökun um ritstuld úr handriti mínu að Sögu SPRON, voru eftirfarandi: „Ég get engu svarað um þetta,“ sagði Ásgeir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins 17. desember sl. „Ég kom að þessu verki í raun á lokastigum, var einn margra höfunda að skýrslunni og fékk afhent efni sem mér var sagt að væri í eigu nefndarinnar.“

Næst greip Ásgeir til þess bragðs að gera Alþingi að skálkaskjóli og þjóðina að þjófsnaut. Hinn 17. desember sl. sagði Ásgeir eftirfarandi á Facebook-síðu sinni: „Aldrei í mínum villtustu ímyndunum hvarflaði að mér að þessi skrif í umboði og undir höfundarrétti Alþingis okkar Íslendinga myndu leiða til þess að ég yrði sakaður um ritstuld á forsíðu dagblaðs - 8 árum síðar. Enda er þá þjófsnautur minn í þessu máli öll íslenska þjóðin - sem á höfundarrétt á öllum rannsóknarskýrslum Alþingis.“

Nú síðast, 4. janúar sl., birti Ásgeir greinargerð skrifstofu Alþingis, frá 27. nóvember 2015, í því skyni að hvítþvo sig. „Það sem skiptir mig máli er að greinargerðin staðfestir algerlega að ég var ekki aðili að málinu og raunar alls ókunnugur því fyrr en ég var tengdur því á forsíðu dagblaðs nú rétt fyrir jólin.“

Hvað er um þetta nýja útspil að segja? Greinargerð skrifstofu Alþingis miðaði eingöngu að því að verja hina seku ritþjófa og freista þess að lágmarka fyrirliggjandi tjón sem þeir og viðbrögð Alþingis höfðu valdið. Í því skyni var horft fram hjá staðreyndum og óyggjandi sönnunum. Í greinargerðinni segir m.a. að niðurstaða Alþingis sé að „komið hafi fram fullnægjandi skýringar“ Rannsóknarnefndar Alþingis og ritstuldurinn hafi verið „óviljaverk en ekki vísvitandi tilraun til ritstuldar“.

Hafa ber í huga að á þessum tíma lá fyrir viðurkenning á ritstuldi í greinargerð Rannsóknarnefndarinnar sjálfrar frá 11. ágúst 2014 og að starfsmenn hennar hefðu haft undir höndum handrit mitt að Sögu SPRON allan ritunartíma Rannsóknarskýrslunnar. Ástæða þessarar kúvendingar nefndarinnar var m.a. sú að til mín rataði óvænt tölvupóstur þar sem Vífill Karlsson, hagfræðingur og starfsmaður nefndarinnar, sendi handrit mitt áfram innan nefndarinnar með orðunum „Trúnaðarmál. Lætur þetta ekki fara lengra“.

Í greinargerð Rannsóknarnefndarinnar segir enn fremur: „Í því starfi var eitt og annað nýtt úr skrifum Árna“ og „Vafalaust má finna umfjöllun í skýrslunni sjálfri, sem byggir að einhverju leyti á því efni“. Jafnframt gerði skrifstofa Alþingis lítið úr álitsgerð sérfróðra matsmanna — tveggja háskólaprófessora, frá 3. júlí 2015, þar sem ritstuldur var staðfestur en Alþingi upplýsti ekki um fyrr en í desember sama ár. Þrátt fyrir grafalvarlegan áfellisdóm matsmanna um ritstuld, sem fól m.a. í sér skýlaust lögbrot, taldi skrifstofa Alþingis fráleitar skýringar Rannsóknarnefndarinnar vera fullnægjandi.

Ásgeir grípur þessa makalausu greinargerð skrifstofu Alþingis á lofti og heldur því fram að málinu hafi lokið með henni en það er alrangt. Eftir að ég og stjórn Sögufélags höfðum hrakið greinargerðina lið fyrir lið þá leitaði Alþingi eftir sáttum. Þær umleitanir áttu sér stað á nokkrum fundum á tímabilinu janúar til mars 2016. Mér til fulltingis á fundunum var Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi forseti Sögufélags. Alþingi bauðst til að greiða mér vangoldin laun og bætur með því skilyrði að ég minntist ekki á málið opinberlega — loka málinu endanlega eins og það var orðað. Ég gekk ekki að þessum afarkostum og upp úr viðræðum slitnaði.

Ásgeir lýkur svo færslu sinni á Facebook á digurbarkalegum nótum: „Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi séð efni frá honum [Árna] þá mánuði sem ég vann sem verktaki fyrir nefndina, eða yfir höfuð að ég hafi vitað að hann [Árni] væri til.“ ... „Allt um það – þessu máli ætti að vera lokið hvað mig snertir. Engar forsendur eru til að bendla mig við ritstuld í tengslum við Rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna.“

Skoðum samt hvort forsendur séu til staðar. Ásgeir sagðist í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins 17. desember sl. hafa fengið „afhent efni sem mér var sagt að væri í eigu nefndarinnar.“ Samt rekur hann ekki minni til að hafa séð efni frá mér eða vitað að ég væri til. Ásgeir reynir að skáka í skjóli þess að hann sé aðeins einn margra höfunda skýrslunnar og sagði „Ekkert efni er þó höfundarmerkt mér sérstaklega.“ Í fyrrnefndri Greinargerð Rannsóknarnefndar Alþingis, dags. 11. ágúst 2014, er Ásgeiri sagður vera höfundur sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna — einmitt sama efni og var í handriti mínu og varðar ritstuldinn. Rannsóknarnefndin telur aðeins upp þrjá starfsmenn sem unnu að ritun sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna. Það eru Ásgeir Jónsson, sem er stillt upp sem sagnfræðingi nefndarinnar í minn stað, Vífill Karlsson og Einar Þorvaldur Eyjólfsson sem eru höfundar Viðauka A í bindi 7 sem ber titillinn „Hagsaga sparisjóðanna.“ Rannsóknarnefnd Alþingis gefur aðeins upp Ásgeir sem höfund texta í öðrum bindum rannsóknarskýrslunnar þar sem um ritstuld er að ræða.

Ólíkt Ásgeiri þá hafa Vífill Karlsson og Einar Þorvaldur Eyjólfsson, höfundar Viðauka A í Rannsóknarskýrslunni, ekki þrætt fyrir ritstuld sinn eftir að álitsgerð matsmanna lá fyrir. Nú grípur Ásgeir til þess bragðs að varpa skuldinni yfir á þá: „Ásakanir um ritstuld snerust að mestu um Viðauka A í skýrslunni sem ber titillinn Hagsaga sparisjóðanna. Þessi viðauki er höfundarmerktur tveimur mönnum – hvorugur þeirra er ég.“ Þá reynir Ásgeir að fría sig ábyrgð með því að segja: „Ritstjórnarleg ábyrgð á Rannsóknarskýrslunni var á höndum þriggja manna nefndar. Ég var ekki í þeirri nefnd og fór aldrei með neina ritstjórnarlega ábyrgð.“ Það er ekki stórmannlegt af Ásgeiri að skella allri skuldinni á aðra. Slíkt at gæti endað eins og hjá þeim nöfnum í Þórðar sögu hreðu: „Þeir nafnar sóttust í ákafa, Þorbjörn aumingi og Þorbjörn vesalingur, og lauk svo að þeir féllu báðir dauðir.“

Að lokum þá vil ég ítreka að ég stend við ásakanir um ritstuld á hendur Ásgeiri Jónssyni. Fyrir utan Vífil og Einar, sem þræta ekki lengur, þá er ekki öðrum til að dreifa en Ásgeiri. Það er einmitt Rannsóknarnefnd Alþingis sem segir hann hafa ritað sagnfræðihluta um sögu og bakgrunn sparisjóðanna, bæði á Íslandi og erlendis — nefnilega sama efni og var í handriti mínu og varðar ritstuld.