Nú er nýlokið Sjálfbærnidegi atvinnulífsins sem EY og SA stóðu að og var haldinn í fyrsta skipti í ár. Erindin voru frábær og mjög góð aðsókn frá bæði fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum, sem sýnir hversu mikið hagaðilar brenna fyrir málefninu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti ráðstefnuna og kom meðal annars inn á það í ávarpi sínu hversu mikilvægt er að efla samstarf opinberra aðila og atvinnulífsins í umbreytingunni í átt að kolefnishlutleysi.

Er hún ekki sú fyrsta sem leggur áherslu á slíkt heldur er almennur samhljómur um að vegferðin að sjálfbærni hefst ekki nema með samvinnu. 17. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna snýr einmitt að samvinnu hagaðila um sjálfbærni.

Samvinnan þarf ekki bara að vera á milli hins opinbera annars vegar og fyrirtækja hins vegar, heldur einnig meðal fyrirtækjanna sjálfra sem og milli fyrirtækja og einstaklinga. Öll verðum við að leggja okkar af mörkum.

Misjafn hraði á vegferðinni

Það er ekkert nýtt að atvinnulífið og frumkvöðlar hreyfast oft hraðar en hið opinbera og oft keyra frumkvöðlar áfram þróun sem ríkið fylgir síðan á eftir með löggjöf og það á vissulega einnig við um þessa vegferð. Hlutverk ríkisins er að sjálfsögðu að vera leiðandi og setja löggjöf sem beinir atvinnulífinu í rétta átt en hlutverkið er einnig að gæta þess að umgjörðin öll sé hvetjandi í átt að markmiðinu.

Hlutverk fyrirtækjanna er að sjálfsögðu að fylgja löggjöfinni sem er til staðar, en það skiptir höfuðmáli að fara af stað og ekki bíða þar til kröfur um sjálfbærni verði bundnar í lög. Þau fyrirtæki sem bíða þar til kröfur til þeirra verða innleiddar í lög munu eiga mjög erfitt með að vinna upp forskot annarra fyrirtækja þegar kröfur, eins og t.d. kröfur tengdar nýrri flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (ESB) verða lögfestar.

Löggjöf frá Evrópusambandinu

Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að vera kolefnishlutlaust árið 2050 (Ísland stefnir að hinu sama árið 2040). Þetta er gríðarlega metnaðarfullt markmið sem mun krefjast þess að fyrirtæki og ríkisstjórnir leggi í miklar fjárfestingar til að umbreyta hagkerfinu til að ná þessum áfanga.

Í kjölfarið verða gerðar ýmsar breytingar á Evrópulöggjöfinni sem eiga að leiða sambandið í átt að markmiðinu og bera þær yfirheitið „The European Green Deal“. Ein þeirra er útgáfa á tilskipun sem ber heitið „Corporate Sustainability Reporting Directive” eða „CSRD“ en drög að þeirri tilskipun voru kynnt 21. apríl síðastliðinn.

Meginefni tilskipunarinnar er eftirfarandi:

Skrifaður verður staðall um sjálfbærniskýrslur sem gilda á innan ESB en markmiðið er samræming í upplýsingagjöf – horft verður til alþjóðlegra staðla við gerð hans.

Fyrirtækjum verður gert skylt að gera skýrslu um sjálfbærni – ekki bara þeim stóru heldur einnig skilgreindum hópi smærri félaga.

Fjöldi fyrirtækja sem þarf að skila sjálfbærniskýrslu er áætlaður 49.000 í stað þeirra tæpra 12.000 sem þurfa að fylgja núverandi lagakröfum (núverandi lagakröfur koma fram í Lögum um ársreikninga og byggja á eldri tilskipun Evrópusambandsins „The Non-Financial Reporting Directive“ (NRFD) sem mun falla út með innleiðingu nýju tilskipunarinnar, CSRD).

Skýrslan verður hluti af skýrslu stjórnar og þar af leiðandi mun stjórn þurfa að staðfesta hana.

Hlutverk og ábyrgð opinberra eftirlitsaðila verður aukið.

Hlutverk endurskoðunarnefnda verður útvíkkað í átt til aukinnar ábyrgðar.

Öll félög sem falla undir tilskipunina þurfa að afla sér óháðrar staðfestingar á sjálfbærniskýrslunni. Hlutverk eftirlitsaðila, sem hér á landi er Reikningsskilaráð, mun einnig ná yfir staðfestingar á sjálfbærniskýrslum.

Eins og sést á ofanrituðu er verið að stórauka kröfur á fyrirtæki innan ESB og ekki bara þau stóru, sem er nýmæli í Evrópulöggjöf hvað varðar skýrslur og staðfestingar, heldur verða smærri félög einnig að hlíta reglunum. Það er athyglisvert í þessu sambandi að krafa um endurskoðun ársreikninga nær eingöngu í dag til stærri félaga og eininga tengdum almannahagsmunum.

Lagaleg tímalína

Núverandi tímalína frá ESB gerir ráð fyrir að aðildarríkin innleiði tilskipunina í október á næsta ári með gildistíma 1. janúar 2023 hvað varðar stærri félögin og að gildistíminn verði 1. janúar 2026 hvað varðar hin smærri.

Á þessari stundu er ekki vitað hverjar áætlanir Evrópska efnahagssvæðisins (EES) eru, hvað varðar innleiðingu í EES-löndunum en ætla má að það verði ekki mikil töf í þeim efnum vegna mikilvægis málaflokksins. ESB-regluverkið mun enn fremur hafa mikil áhrif á fyrirtæki hér á landi sem eru með viðskiptatengsl við innri markað ESB s.s. vegna vöruútflutnings. Þá er vert að nefna að Bretland sem nýverið gekk út úr ESB og er stór viðskiptaaðili margra íslenskra fyrirtækja, sér fram á setningu sambærilegra reglna á sínum markaði.

Ekki bíða!

Ein meginskilaboðin frá áðurnefndum Sjálfbærnidegi voru að fyrirtæki eigi ekki að bíða með að grípa til aðgerða heldur hefja sína sjálfbærnivegferð strax í dag. Við sjáum t.a.m. mörg stærri fyrirtæki og stofnanir setja sér birgjareglur þar sem þau ætla að horfa til sjálfbærniþátta við val á samstarfsaðilum. Einnig er aukið ákall frá fjárfestum um óháða staðfestingu en slíkt margfaldar gildi upplýsinganna með auknum trúverðugleika og gagnsæi.

Eins og fram kom að ofan er yfirvofandi lagaskylda frá ESB um óháða staðfestingu á sjálfbærniupplýsingagjöf, en ég hvet fyrirtæki sem vilja vera leiðandi á markaði til að bíða ekki eftir að hún taki gildi heldur hefja vegferðina strax. Í nágrannalöndum okkar hefur óháð staðfesting tíðkast í áraraðir en aðeins nokkur félög hafa farið þá leið hér á landi. Með ofangreind atriði í huga, þá vonast ég til þess að fjöldi fyrirtækja sem sækja sér óháða staðfestingu á sjálfbærniupplýsingum muni margfaldast strax á næsta ári!