Í gær var greint frá því að verðbólga væri komin yfir 10 prósent í fyrsta sinn síðan í september árið 2009, fyrir nærri fjórtán árum. Barn sem fæddist á sama tíma er að fermast í vor. Þegar fermingarbarnið fæddist mældist verðbólgan 10,8 prósent og var á leiðinni niður eftir hrunið. Í gær mældist hún 10,2 prósent og vísitala neysluverðs hafði hækkað um 1,39 prósent.
Verðbólga er eitthvað sem við vitum að hefur áhrif á kaupmátt, enn eitt orðið sem við heyrum aftur og aftur en leggjum kannski ekki fulla merkingu í eða skiljum. Verðbólga er viðvarandi hækkun verðlags sem metin er út frá vísitölu neysluverðs. Það er, hvað kosta hlutirnir sem „hin venjulega fjölskylda“ er að kaupa samanborið við það hvað þeir kostuðu fyrir einu ári. Í gær kostaði mjólkin, brauðið og allt hitt sem við þurfum rúmum tíu prósentum meira en það kostaði fyrir tólf mánuðum síðan. Þetta er auðvitað einföldun en hún kemur manni langt.
Þessar tölur sem við fengum í andlitið í gær eru eins og í hryllingsmynd. Þær eru allt of háar og hafa ógnvænlega mikil áhrif á líf okkar og hegðun. Áhrifin eru þó mismikil. Því minni peninga sem þú átt, því meiri hljóta áhrifin að vera.
Nú í miðri kjaradeilu heyrum við það aftur og aftur að ekki sé hægt að hækka laun nema upp að ákveðnu marki í verðbólgu. Hækkun launa leiði af sér verðhækkanir og minni kaupmátt en sjaldnar heyrum við að verðhækkanir séu orsök minni kaupmáttar. Í þessu samhengi er því sjaldan velt upp hvort kom á undan, hænan eða eggið.
Við vitum að þegar laun hækka þá hækkar á sama tíma kostnaður atvinnurekenda. Það getur skilað sér í hærra verðlagi, með hærra verðlagi lækkar svo kaupmáttur. Lægri kaupmáttur kallar svo á hærri laun. Þarna skapast vítahringur sem við erum stödd í akkúrat núna.
Um mitt síðasta sumar sagði formaður Samtaka atvinnulífsins að verkefni vinnumarkaðarins, að hans mati, væri að bíða af sér storminn og ná verðbólgunni niður, lítið þýddi að fara í miklar launahækkanir í svo mikilli verðbólgu. Þarna var hún átta til níu prósent. Nú er hún yfir tíu prósent. Hvað á þetta fólk sem á ekki fyrir mat og getur ekkert leyft sér að bíða lengi að gera? Er um að ræða enn eitt dæmið þar sem litli maðurinn er sá sem skal bíða og bíða og lúffa fyrir þeim stóra?