Ferðaþjónustan í landinu á erfitt á meðan verslun blómstrar sem aldrei fyrr. Ástæðan er augljós – það eru allir heima og þeir 200 milljarðar sem Íslendingar hafa eytt erlendis leita nú annað. Á síðasta ári jókst innlend kortavelta um rúma 70 milljarða sem skilaði um 10 milljörðum beint í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts. Fátt sýnir okkur betur fram á að það skiptir máli hvar við verslum. Þessar auknu tekjur ríkissjóðs fara til dæmis létt með að kosta nýtt átak ríkisstjórnarinnar þar sem skapa á tímabundið 7.000 störf. En Íslendingar munu fljótt flykkjast til útlanda á ný og hagkerfið mun ekki fara varhluta af því – en er á meðan er.

En á síðasta ári þóttumst við Íslendingar einnig hafa dottið í lukkupott er vextir lækkuðu nokkuð og heimilin skuldbreyttu sem aldrei fyrr. Engu að síður greiða íslensk heimili um 80 milljarða í vexti af íbúðalánum samkvæmt skattframtölum. Það er hins vegar staðreynd að vextir hér eru enn margfalt á við það sem gerist í nágrannalöndunum. Ef íslenskum heimilum myndu standa til boða viðlíka vaxtakjör gætu losnað úr læðingi allt að 50 milljarðar árlega sem heimilin gætu nýtt í eitthvað skemmtilegra en að borga vexti.

Það hefur mér lengi verið óskiljanlegt af hverju við umberum þessa þöggun um krónuna enda fátt sem hefur meiri áhrif á það sem eftir er í veskinu um hver mánaðamót en krónan. Getum við rifið okkur upp úr flokksgröfum og tekið umræðuna um gjaldmiðilinn á yfirvegaðan hátt? Krónan hefur vissulega kosti og sumir græða á henni – sumir mjög mikið. En það eru í fæstum tilfellum venjuleg heimili eða meirihluti atvinnulífsins. Hinn þögli meirihluti!