Umfjöllun margverðlaunaðs fréttaþáttar á RÚV um starfsemi Samherja bæði innanlands og víða erlendis hefur orðið tilefni umfangsmikilla sakamálarannsókna í nokkrum ríkjum. Fréttamenn fá vart betri staðfestingu á gagnsemi starfs síns, en til viðbótar hafa umsjónarmenn Kveiks fengið blaðamannaverðlaun fyrir umfjöllun sína, auk Edduverðlauna og alþjóðlegra verðlauna.

Þann orðstír sem Kveikur hefur fært stofnuninni þakkar RÚV með því að gera Helga Seljan að skúrkinum í málinu og skúrkinn í málinu að fórnarlambi Helga Seljan. RÚV hefur lýst því yfir skriflega að Helgi hafi hagað sér með siðlausum hætti gagnvart fyrirtæki sem hann hefur nýverið afhjúpað með slíkum hætti að forsvarsmenn þess eru nú til rannsóknar víða um heim fyrir alvarlega glæpi.

Það er stórkostlegt ábyrgðarleysi af RÚV, sem er opinbert fyrirtæki og reynir að halda í þá sjálfsmynd að það sé fremst íslenskra fjölmiðla, að veita starfsfólki sínu ekki öflugri vernd fyrir ofsóknum en raun ber vitni. Ofsóknir starfsmanna Samherja gegn fréttafólki og sérstaklega Helga Seljan hafa farið fram fyrir opnum tjöldum og ekki aðeins á innlendum vettvangi heldur einnig á þeim alþjóðlega vettvangi sem fyrirtækið starfar á. En umfjöllun Samherja um Helga Seljan ber þess einnig glögg merki að Helgi fái líka að finna fyrir afli þess í sínu persónulega lífi; í formi eftirlits og áreitis. Það vekur furðu að RÚV láti ekki duga að bregðast skyldum sínum gagnvart fréttamanni sem fært hefur stofnuninni jafnmikinn heiður og Helgi Seljan, heldur beinlínis snúi öllu á hvolf.

Margir hafa orðið til þess að drepa niður penna um þetta mál á samfélagsmiðlum. Annars vegar hafa menn tekist á um gæði svokallaðra siðareglna sem enginn virðist vita undan rifjum hverra eru í raun og veru runnar. Hins vegar er rætt um hvað siðanefnd RÚV gekk til með sínum fáránlega úrskurði. Þetta eru góð og gild umræðuefni. Það er mikilvægt að fyrir liggi hvort stjórnendur RÚV voru að ljúga því um allar trissur að Helgi Seljan hefði sjálfur sett sér þessar reglur, en það myndi væntanlega gera Helga sjálfan að ábyrgðarmanni úrskurðarins um eigið siðleysi.

Þegar rykið sest og menn hafa komið sér saman um hvað fór úrskeiðis í þessu furðulega kærumáli Samherja um siðferðiskennd Helga Seljan, hljótum við sem störfum við fréttamennsku í þessu landi að beina spjótunum að vinnuveitendum okkar og gera kröfu um betri frammistöðu. Flestir Íslendingar telja sennilega að þar eigi Ríkisútvarpið að fara fremst í flokki með góðu fordæmi, virðingarstöðu sinnar vegna. Í þessu máli hefur ríkisfjölmiðillinn brugðist algerlega. RÚV skilur sinn fremsta mann eftir einan úti á berangri, gagnvart peningavaldi sem er nógu öflugt til að láta ráðherra hér heima og erlendis sitja og standa að eigin geðþótta og nógu ófyrirleitið til að sýna æðstu embættismönnum þjóðarinnar ofbeldisfulla hegðun í beinni útsendingu.