Það er talað um ófrjósemi þegar par hefur reynt að eignast barn í rúmt ár án þess að þungun hafi átt sér stað. Ófrjósemi er mun algengari en marga grunar og eru hátt í 20% para að takast á við þetta verkefni. Sjálf tengist ég náið ungu pari sem er að glíma við þetta erfiða hlutskipti, en þau opnuðu sig á fésbókinni fyrir stuttu um málið.

Er þessi bakþanki skrifaður með þeirra samþykki – enda umræðan þörf.Það sjá flestir fyrir sér lífið á ákveðinn hátt – við menntum okkur, hefjum sambúð og þegar við teljum rétta tímann kominn þá hefjast barneignir. En stundum bara koma börnin ekki þegar við viljum.

Ungt fólk fyllist von og eftirvæntingu í hverjum mánuði en upplifir síðan sorg mánuð eftir mánuð – jafnvel ár eftir ár, þegar ljóst er að þungun hefur ekki átt sér stað eða fósturlát orðið. Fylgikvillar eins og þunglyndi, kvíði og skert sjálfsmynd geta ágerst og allt þetta álag getur reynt verulega á ungt samband.

Sem betur fer hefur vísindum fleygt fram og hægt er að hjálpa mörgum til að eignast kraftaverkabarn, en það ferli er bæði kostnaðarsamt og reynir ekki síður á. En fólk sem glímir við ófrjósemi á ekki að burðast með þetta verkefni eitt – við eigum að vera óhrædd að ræða ófrjósemi.

Með auknum skilningi og þekkingu á ófrjósemi aukast líkur á utanaðkomandi stuðningi í garð þeirra sem glíma við þetta vandamál – stuðningi sem þetta unga fólk þarf svo mikið á að halda.En sterkustu skilaboðin frá þessu unga pari eru: Aldrei spyrja fólk á barneignaaldri hvort það ætli ekki að drífa sig í að koma með barn!

Þau eru annaðhvort að reyna það – geta það ekki eða langar ekki til þess.