Ófræging verðtryggingar og verðtryggðra húsnæðislána, ekki síst langra með jöfnum greiðslum, hefur dunið á um langt skreið. Þó hafa „ábyrgir“ opinberir aðilar lengst af haldið aftur af sér í þeim efnum. Nýverið brá þó svo við að sjálfur seðlabankastjórinn tók óviðurkvæmilega í þann streng svo tók út yfir (sjá grein undirritaðs Fídus seðlabankastjórans á frettabladid.is og visir.is).

Ríkisútvarpið hefur yfirleitt farið sér hægt að tjá viðhorf í þeim efnum. Svo brá þó við sunnudaginn þann 28. ágúst í fréttatíma sjónvarpsins (fyrsta frétt) að doktor nokkur í hagfræði, kunnur að andúð sinni á verðtryggingum, fær að úthrópa þau athugasemdalaust. Þetta á að vera bjargráð hans til þess fólks sem er í bráðavanda með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum sem skollið hefur á (eins við var að búast). Það fólk á augljósa leið út úr þeim bráðavanda og fjöldinn er að nýta sér hann, en nei: – ekki gera það. Borgið þið þegar verðbótavaxtaálag á ógjaldfallnar skuldir strax (hækkaða vexti) úr tæmdum vösum og flytjið svo inn í leiguíbúðir lífeyrissjóðanna – guð má vita hvenær.

Undirritaður leyfir sér að sítera málflutning hagfræðingsins með framíköllum. Svo segir: Hann telji að brýnt sé að takmarka aðgengi að verðtryggðum lánum. „Ég mæli með því fyrir einstaklingana sem eru að hugsa um sinn gang akkúrat núna, borgið þið niður skuldir eins mikið og þið getið [ef þið getið – þó það væri obbolítið], færið ykkur sem minnst yfir í verðtryggð lán [hvernig lán þá í staðinn með léttri greiðslubyrði ?]. Munið þið eftir því að höfuðstóllinn á verðtryggðum lánum hækkar [– vegna þess að hver króna er þá verðminni og verðmæti hinna veðsettu eigna hækkar líka og jafnvel meira] vegna þess að þá verður höggið minna þegar vaxtastigið á lánunum breytist í framtíðinni [!! – hvaða lánum? – þeim verðtryggðu sem eru með föstum vöxtum ha? – hvaða högg!!]“

Til málsvara verðtrygginga er yfirleitt alls ekki leitað í fjölmiðlum.

Svo er það leiðari Fréttablaðsins 31. ágúst, er agnúast út í íslensku krónuna og stýrivaxtahækkanir og má það liggja milli hluta hér. Hins vegar segir svo þar: „Ekki er hægt að geyma verðmæti í íslenskri krónu vegna þess að þau verða að engu. Verðtryggingunni var ætlað að bæta úr því en afleiðingar verðtryggingar hafa birst okkur í kollsteypum sem skaða atvinnulífið í landinu og almenning en maka krókinn fyrir fjármálakerfið og efnamikla fjárfesta.“

Skorað er á leiðarahöfund og ritstjórn blaðsins að þessar fullyrðingar um afleiðingar verðtryggingar verði rökstuddar og færðar fram sannanir fyrir þeim og vísað til slíkra tilvika.