Þeim lýðræðisþjóðum sem leggja áherslu á upplýsta umræðu stafar æ meiri hætta af öfgahyggju sem nærist einna helst á fordómum, alhæfingum og grunnhyggni.

Ástæða þessarar varhugaverðu þróunar er efalítið margþætt, en að stórum hluta má rekja hana til aukinnar vantrúar á stofnanavæddri og staðnaðri stjórnmálamenningu sem hefur eftirlátið embættismannakerfinu sitt upprunalega lýðræðisumboð. Fyrir vikið sjá menn ekki jafn ríka áherslu á að taka þátt í kosningum og áður – og enn síður í hefðbundnu stjórnmálastarfi þar sem næsta litlaus málamiðlunin getur af sér lægsta samnefnarann í hverjum efnisflokknum af öðrum.

Kannski má kalla þetta lýðræðisþreytu. Einu gildir hvað menn kjósi. Ekkert breytist þótt reglulega sé skipt um landsstjórnina. Kerfið malli bara af kunnuglegri vanafestu. Og sjálfhverf stjórnsýslan sé öðru fremur hugsuð til heimabrúks í stað þess að þjóna fólkinu í landinu. Þegar ofan í þetta bætist svo æ minni áhugi á ritstýrðu fréttaefni og málefnalegri umræðu, í bland við aukið óþol gagnvart vandlega staðreyndri vísindavinnu, er ekki nema von að tími lýðskrumsins renni upp þar sem upphrópanirnar hljóma langtum betur í eyrum fólks en gaumgæfð og hófstillt ummæli.

Þetta er ef til vill meginástæða þess að æ stærri hópur fólks kýs að draga fyrir gluggana og dvelja í skúmaskotum eigin hugsana. Fyrir þessum hópi eru staðreyndir ekkert annað en þreytandi upptalning og vönduð upplýsing er einfaldlega afgreidd sem uppáþrengjandi afskiptasemi.

Og vantrúin á samfélagið eykst eftir því sem einangrunin teygist á langinn. Óbeitin á mörgum helstu meginstoðum réttarríkisins grefur um sig. Gremjan yfir því að kerfið hafi alltaf betur en aumur einstaklingurinn verður öllu öðru yfirsterkara. Og fyrirlitningin á fólki, sem enn telur sér það til ágætis að geta skipst á ólíkum skoðunum við mann og annan, verður alger og yfirþyrmandi.

Það er í þessum jarðvegi sem útilokunaráráttan þrífst, sjálf ófyrirleitna krafan um einsleitni, en andspænis mannvirðingu og umburðarlyndi sýnir hún styrk sinn og yfirburði á afdráttarlausan hátt.

Gegn þessari einstrengni þarf að berjast, svo og öllu fáfræðisæðinu sem runnið hefur á mann og annan, ekki síst unga karla sem telja sig hafa tapað fyrir fjölbreytileikanum og finna honum allt til foráttu.

Og þetta þarf að gera af yfirvegaðri festu svo allur þorri almennings, sem trúir á frelsi og jafnrétti, fái áfram lifað í óttalausu landi.