Mörgum hnykkti við á miðvikudag þegar fréttist af árás innan veggja Borgarholtsskóla. Af myndböndum að ráða, sem send voru til fjölmiðla af atburðinum, var framganga þeirra sem fyrir árásinni stóðu hömlulaus. Beiting bareflis og hnífa er til vitnis um hversu hættuleg atlagan var og hve mikið lán var að ekki fór verr.
Ekki hefur enn verið upplýst hver tildrögin voru en ýmislegt bendir til að þetta hafi verið ætlað sem einhvers konar uppgjör eða hefndaraðgerð.
Að kvöldi sama miðvikudags greindi Fréttablaðið frá slagsmálum ungmenna sem brutust út í einu hverfa borgarinnar þar sem hnefar voru látnir skipta og hættuspörkum beitt.
Ekki er langt síðan sagt var frá grófum slagsmálum á Laugavegi og sömuleiðis alvarlegri líkamsárás fjölda ungmenna við Hamraborg í Kópavogi. Og þetta eru aðeins dæmi af handahófi. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi of beldi í samskiptum fólks. Í hverri viku þarf lögregla að hafa afskipti af fólki sem virðist líta svo á að of beldi sé leið til samskipta. Á ritstjórnir fjölmiðla berast daglega fréttir af árásum og róstum, ýmist á heimilum fólks eða á götum úti. Sumt af því á erindi við almenning og þá sagðar af því fréttir. Fréttablaðið hefur ítrekað fjallað um of beldi undanfarna mánuði, meðal annars gegn þeim sem standa höllum fæti og eiga bágt með að bera hönd fyrir höfuð sér.
„Niðurstöður rannsóknar sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið 2017 sýndi að 59 prósent fatlaðra kvenna höfðu orðið fyrir kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu of beldi á lífsleiðinni og 48 prósent fatlaðra karla,“ sagði Hrafnhildur S.
Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við blaðið um miðjan desember. „Of beldið sem fatlaðar konur verða fyrir er svo margslungið og það sem vefst fyrir mér sem rannsakanda er að ég er eiginlega fullviss um að tíðnirannsóknir vanmeti umfang of beldisins, þótt þær gefi sannarlega mikilvægar vísbendingar,“ segir Hrafnhildur jafnframt í fréttinni.
Allt eru þetta einhvers konar birtingarmyndir of beldis og ofríkis sem sífellt virðist bera meira á. Nú má vel vera að þetta hafi alltaf verið svona. Of beldi hafi alltaf grasserað meðal fólks en aukin vitund þess, meðal annars vegna umfjöllunar fjölmiðla, birtingar myndbanda á samfélagsmiðlum og almenn umræða, hafi dregið það fram í dagsljósið.
Hvernig sem í því liggur er ljóst að of beldi er samfélagsmein. Við getum ekki samþykkt of beldi sem aðferð til að koma skoðunum á framfæri, knýja fram úrslit mála, hafa áhrif á framvindu þeirra eða beinlínis til að sýna mátt sinn og megin.
Sama í hvaða mynd, of beldi getur aldrei verið svar við neinu. Það meiðir og skemmir. Það þarf að uppræta.
Byrjum á þeim sem því beita. Þeir eru hjálpar þurfi og þurfa stuðning ekki síður en þeir sem fyrir því verða.