Byltingar skila ó­lík­lega til­ætluðum árangri ef byltingar­sinnar leggja fram hóf­samar kröfur, með kurteis­legum hætti. Þegar kallaðer eftir rót­tækum breytingum og
það strax, dugar ekkert kodda­hjal. En þegar skotið er úr öllum byssum er lík­legt að ein­hver skotin hæfi ekki markið og sak­laust fólk liggi í valnum. Um­ræður undan­farinna vikna bera merki þess.

Í bar­áttu sinni fyrir þol­endur of­beldis fer ham­förum á sam­fé­lags­miðlum fá­mennur en há­vær hópur aktív­ista, oftar en ekki með blaða­menn í eftir­dragi sem hafa vart undan við að slá gífur­yrðunum upp sem fréttum.

Full­yrt er að innan knatt­spyrnu­hreyfingarinnar grasseri nauðgunar­menning, þöggunar­kúltúr, kven­fyrir­litning, eitruð karl­mennska, ger­enda­með­virkni og fleira í þeim dúr. Auð­vitað trúa fæstir þessum upp­hrópunum en af ótta við út­skúfun og vand­lætingu, þegir fólk þunnu hljóði. For­maður KSÍ hrökklaðist úr starfi og fyrir tæki hættu sam­starfi af ótta við aktív­istana. Það dugði þó skammt og þess var næst krafist að stjórnar­fólkið, sem allt er sjálf­boða­liðar, skyldi einnig „fokkast í burtu“.

Þeir sem hika við að slást í hópinn með að­gerða­sinnunum eða voga sér að gagn­rýna að­ferða­fræði þeirra lenda næstir í ó­hróðrinum, sakaðir um að trúa ekki þol­endum of­beldis eða þaðan af verra. Þótt flestir séu sam­mála um mark­miðið þá er ekki boðið upp á rök­ræður um leiðina og eignar­réttur aktív­istanna á umræðunni virðist vera al­gjör. Það er ekki mikil­vægum mál­stað til fram­dráttar.

Hópar sem þykjast berjast gegn of­beldi en notast við að­ferða­fræðina „ef þú ert ekki með okkur þá ertu á móti okkur og við munum þá láta þig finna fyrir því“ gera auð­vitað ekkert annað en að beita sjálfir of­beldi – bara annarri tegund þess.