Þegar kynbundið ofbeldi ber á góma er það oftast tengt því að konur stíga fram og segja frá eigin reynslu í þeim efnum. Í framhaldinu er ekki óalgengt að karlar spyrji hvers vegna ekki sé verið að ræða þeirra mál líka. Þó svo að það sé algjörlega óviðeigandi að notfæra sér pláss kvenna til að tjá sig um eigin raunir, þá er ljóst að karlar þurfa að vakna til vitundar um þennan málaflokk, þar sem þeir verða líka fyrir kynbundnu ofbeldi, en ekki síst til þess að efla skilning á því hvað veldur vandanum og hvað sé til bóta.

#MeToo umræðan sýndi okkur það sem við vissum fyrir en horfðumst ekki í augu við. Flestar konur verða því miður fyrir einhverskonar kynferðislegri áreitni sem hefur lengi talist eðlilegur fylgifiskur þess að vera kona, jafnvel svo sjálfsagður að sumir karlar kvarta yfir því að nú „megi ekkert lengur“; það megi ekki koma við konur, tala við þær, eða segja þeim að brosa meira, án þess að vera vændur um ofbeldi!

Við vinur minn lentum einu sinni í því að eldri karl áreitti okkur í heitum potti í einni af sundlaugum borgarinnar. Þó svo að ekkert mjög alvarlegt hafi átt sér stað, þannig séð, þá viðurkenni ég að þessi ógeðfellda upplifun sat í okkur marga daga á eftir. Það er nefnilega talsvert annað að hlusta á einhvern segja frá ofbeldi og áreiti heldur en að upplifa það sjálfur.

Þessi reynsla okkar félaganna gefur ekki nema rétt nasasjón af því sem konur hafa þurft að ganga í gegnum í þessum efnum. Hún er hreint ólíðandi þessi ranghugmynd margra karla, að þeir geti haft óhindraðan aðgang að konum, líkt og þær séu einhverjir hlutir sem hægt er að ráðskast með að vild, en ekki mannverur með réttindi og sjálfstæðan vilja.

Afstaða af þessu tagi verður þó ekki til úr engu. Frá blautu barnsbeini erum við vanin við ákveðin kynhlutverk, drengir og stúlkur eiga t.d. að haga sér á ólíkan hátt, velja ólíka liti, leikföng o.s.frv. Strákum er kennt að gera mistök og sýna hugrekki, meðan stelpum er kennt að vera prúðar og sætar. Strákar þroska með sér „karlmennsku“ þ.e. verða sterkir og hugrakkir, en stúlkur hafa ekkert sambærilegt að stefna að þar sem hugtakið „kvenmennska“ er ekki einu sinni til. Merking orðsins „karlmennska“ er ekkert slæm útaf fyrir sig, en tilvist þess gerir það að verkum að við búum til þá hugmynd að þessir jákvæðu eiginleikar eigi aðeins við um eitt kyn. Jafnframt fá karlmenn þau skilaboð að þeir verði sífellt að harka af sér og sýna helst engan vott af viðkvæmni þar sem hún gæti vegið að karlmennsku þeirra. Þarna liggja ákveðnar rætur að þeim vanda og viðhorfum sem við erum í auknum mæli hætt að sætta okkur við í mannlegum samskiptum.

Hvað sem veldur þá varðar kynbundið ofbeldi okkur öll, sama hver reynslan okkar kann að vera. Ég er handviss um að við tækjum skref fram á við ef við ræddum ofbeldi og áreitni opinskátt í meira mæli. Það er sannarlega margt sem við karlmenn gætum lagt á vogarskálarnar í þeim efnum og við erum sem betur fer margir sem getum og viljum gera betur. Við þurfum bara að byrja og þora.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Viðreisnar og sat í stýrihópi sem endurskoðaði stefnu borgarinnar um einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustöðum.

Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.