Ein nöturlegasta ákvörðun borgarinnar síðustu áratugi var að leggja niður sérskóla og sérúrræði í krafti „skóla án aðgreiningar“. Börnum með fötlun eða sérþarfir var hent inn í almennu skólana í von um að þau myndu þá fara að haga sér almennilega og kannski verða eins og annað fólk.

Þessi ákvörðun var meðal annars byggð á pólitískum rétttrúnaði, óraunhæfum væntingum og jafnvel von um sparnað.

Ákvörðunin var tekin af sérfræðingum á menntasviði sem hafa ekki haft góða þekkingu á fötlun og/eða verið í fullkominni afneitun á eðli fötlunar.

Í stað þess að undirbúa skólana, kennarana og annað fagfólk undir komu barna, sem ekki áttu lengur aðgang að sérúrræðum, var þeim hent í fang kennara sem höfðu hvorki menntun né þjálfun til að sinna þeim og höfðu meira en nóg að gera við að sinna þeim nemendum sem þeir höfðu fyrir.

Fyrrverandi sérfræðingur á menntasviði sagði mér að eina leiðin til að knýja fram breytingar í skólakerfinu, væri að leggja niður sérúrræði svo almenni skólinn neyddist til að sinna börnum með sérþarfir.

Það átti, með öðrum orðum, að beita saklausum börnum í pólitískum tilgangi án þess að skeyta um afleiðingarnar.

Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós. Skólarnir reyna að finna leiðir til að koma til að móts við þarfir barna sem þurfa sérstaka þjónustu á sama tíma og þeir þurfa að sinna öðrum nemendum, halda uppi jákvæðu andrúmslofti og vinnufriði. Vafalítið leita þeir ráða hjá öðrum sérfræðingum sem sumir hafa trú á atferlismótum sem felur í sér „time-out“ og þar með er tekin upp sú aðferð að loka börn inni.

Ónauðsynleg valdbeiting og ofbeldi á börnum í skóla er á ábyrgð borgarinnar. Hvort sem það er vegna þess að kennari er örmagna og ráðalaus eða skólinn tekur upp vafasamar aðferðir sem eru þó viðurkenndar í ákveðnum tilfellum undir handleiðslu sérmenntaðra aðila.

Það er vægt til orða tekið að áðurnefnd ákvörðun borgarinnar hafi verið klúður. Hún hefur skaðað nemendur, kennara, fjölskyldur og skólakerfið.

Ákvarðanir sem eru teknar af vanþekkingu, meðvirkni, afneitun og jafnvel fordómum og ofstæki, geta aldrei leitt til góðrar niðurstöðu.

Það er óskandi að saklaus börn þurfi ekki mikið lengur að gjalda fyrir ákvarðanir misviturra sérfræðinga á menntasviði.