Þau eru mörg verk­efnin sem verið er að kljást við í grunn­skólum landsins, sum eru sýni­leg en önnur krauma undir yfir­borðinu og eru falin flestum. Eitt al­var­legasta við­fangs­efnið sem blasir við kennurum er því miður falið og er allt að því „tabú“. Hér á ég við of­beldi gagn­vart kennurum, en í grófum dráttum mætti skipta því í þrennt:

  • Of­beldi sem kennarar verða fyrir af hálfu nem­enda
  • Of­beldi sem kennarar verða fyrir af hendi for­eldra
  • Of­beldi sem kennarar verða fyrir af yfir­mönnum sínum

Öll við­fangs­efni af þessum toga eru erfið viður­eignar fyrir kennara enda eru þeir ber­skjaldaðir, njóta lítillar sem engrar verndar og þegar á reynir mætir þeim oftar en ekki skilnings­leysi og jafn­vel van­trú. Mál þessarar tegundar hafa nær alltaf al­var­legar af leiðingar, hvort sem er líkam­legar eða and­legar.

Í þeim til­vikum sem nemandi beitir kennara of­beldi leiðir það stundum til þess að kennari óskar eftir því að vera færður úr að­stæðum, annað hvort með því að nemandinn verði fluttur til eða kennarinn sjálfur. Kennarinn stendur ber­skjaldaður eftir ef skóla­stjóri verður ekki við þessum um­leitunum hans. Allt of mörg dæmi eru um að kennarar gefist ein­fald­lega upp í slíkum að­stæðum og endi mögu­lega í veikindum eða hætti kennslu, enda standa þeim fáar aðrar leiðir til boða. Þessi snúna staða milli ó­lög­ráða ein­stak­lings og kennara er sjaldnast auð­leyst, þó svo góðir ferlar og skýrar reglur séu til staðar.

Til­vik of­beldis af hálfu for­eldra má að mörgu leyti setja undir sama hatt. Þau mál geta þó jafn­vel verið enn flóknari þar sem kennurum ber skylda til að kenna öllum nem­endum og í starfinu ber þeim að að­greina per­sónu­lega hags­muni og fag­lega. Ein megin­s­kylda kennara er að vera já­kvæð fyrir­mynd og vinna að já­kvæðum skóla­brag og getur við­horf for­eldra til þessara verk­efna verið ó­líkt og sitt sýnist hverjum. Þannig getur kennari staðið frammi fyrir því að auk þess sem rýnt er í hans fag­lega sjálf, séu öll hans sam­skipti innan skóla og utan til skoðunar.

Þrátt fyrir að skólar séu stofnanir sem eiga að vinna með ólík sjónar­mið og ýta undir styrk­leika hvers og eins, þá eru fjöl­mörg dæmi um að rót ein­eltis, sem kennarar verða fyrir í starfi sínu, eigi upp­runa sinn hjá skóla­stjórum. Birtingar­mynd þess getur falist í að grafið sé undan fag­mennsku og heilindum kennara. Kennarar upp­lifa mikinn van­mátt í að­stæðum sem þessum og enn á ný eru af­leiðingarnar oftar en ekki þær að kennarinn gefst upp. Van­máttugur kennari hefur þá einu leið að til­kynna ein­elti til Vinnu­eftir­lits ríkisins sem „hættu­legar að­stæður á vinnu­stað“.

Mál af þessum toga geta verið mjög flókin og skal tekið fram að kennurum getur orðið á í starfi sínu eins og öðrum, en hér er ég að leggja á­herslu á að gefa verður að­stæðum kennara miklu meiri gaum þegar þessi mál eru vegin og metin.

Þessar þrjár birtingar­myndir of­beldis eru ekki einungis al­var­legar fyrir kennarana sem fyrir því verða, heldur getur fylgi­fiskur þessa orðið að al­var­legu innan­meini í skóla­kerfinu sem dregur úr nauð­syn­legum krafti kerfisins til að takast á við þær á­skoranir sem fylgja því að vinna með börn og ung­menni á leið sinni til þroska.

Það er kominn tími til að horfast í augu við vandann og taka á honum. Ef við höldum á­fram að þegja þessi mál í hel, gerum við ein­fald­lega illt verra.