Einn af grundvallarþáttum í ríkjum þar sem borgararnir treysta á lög og rétt er sá að reglur séu skýrar og auðskiljanlegar. Þau byggja á að fólk hafi frelsi til athafna að því marki að frelsi þess takmarki ekki frelsi annarra.
Flest viljum við að þannig sé gengið frá málum að ekki þurfi að efast um að réttilega hafi verið staðið að allri reglusetningu. Eftir því sem settar eru meiri hömlur og takmarkanir á borgarana eru ríkari kröfur gerðar til vandvirkni og reglurnar eigi stoð í lögum og jafnframt gangi ekki í berhögg við þau.
Reglurnar leiða til þess að farþegar eru hnepptir í skyldusóttkví á hóteli, jafnvel þótt þeir eigi hér heimili og geti tekið út sóttkvína þar.
Ekki kom sérstaklega á óvart að héraðsdómur skyldi komast að þeirri niðurstöðu í gær að of langt væri gengið.
Í nýbreyttum sóttvarnalögum er sóttvarnahús skilgreint sem staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða staðfest er að svo sé.
Ekkert í þessum texta fjallar um að skylda megi fólk til dvalar í þess konar húsum.
Það er reyndar heimild til sóttvarnalæknis til þess arna, en það er þegar aðstaðan er sú að fólk hafi fallist á samstarf um að fylgja reglum um sóttkví en í ljós komi að reyndin hafi verið önnur.
Í þessum reglum er vísað til ferðamanna. Hvort það hugtak tekur til Íslendinga á heimleið, eins og dæmi eru um meðal vistmanna í sóttvarnahúsi, er óljóst.
Í lögunum segir að ráðherra sé heimilt að kveða á um í reglugerð að fólk gangist undir sóttkví óháð því hvort grunur sé um að þeir hafi smitast – en þá aðeins „til að bregðast við tiltekinni hættu eða bráðri ógn við lýðheilsu“.
Í fréttaskýringu á vef Fréttablaðsins frá því á laugardag kemur fram að þingmenn sem rætt var við hafi efasemdir um hvort þeir tímar sem við nú lifum og koma Íslendinga heim teljist „hætta eða bráð ógn við lýðheilsu“.
Þetta er lykilatriði. Þegnar þessa lands verða að geta treyst því að ekki sé lengra gengið í takmörkunum og hömlum en nauðsyn krefur og heimilt er.
Stjórnvöld eru bundin af reglu um meðalhóf. Sú regla segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem stefnt er að með ákvörðuninni, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn krefur.
Ekki ber á öðru en við þessa reglusetningu hafi meðalhófið gleymst.
Sóttvarnaráðstafanir eru mikilvægar. Um þær þarf að vera sátt. Ekki var von til þess að svo yrði.
Við getum ekki liðið að gengið sé frjálslega um grundvallarmannréttindi á borð við frelsi einstaklingsins. Við getum ekki sætt okkur við að fólk sé svipt frelsinu þegar önnur og vægari úrræði eru tiltæk.
Þetta er ófært.