Einn af grund­vallar­þáttum í ríkjum þar sem borgararnir treysta á lög og rétt er sá að reglur séu skýrar og auð­skiljan­legar. Þau byggja á að fólk hafi frelsi til at­hafna að því marki að frelsi þess tak­marki ekki frelsi annarra.

Flest viljum við að þannig sé gengið frá málum að ekki þurfi að efast um að rétti­lega hafi verið staðið að allri reglu­setningu. Eftir því sem settar eru meiri hömlur og tak­markanir á borgarana eru ríkari kröfur gerðar til vand­virkni og reglurnar eigi stoð í lögum og jafn­framt gangi ekki í ber­högg við þau.
Reglurnar leiða til þess að far­þegar eru hnepptir í skyldu­sótt­kví á hóteli, jafn­vel þótt þeir eigi hér heimili og geti tekið út sótt­kvína þar.

Ekki kom sér­stak­lega á ó­vart að héraðs­dómur skyldi komast að þeirri niður­stöðu í gær að of langt væri gengið.
Í ný­breyttum sótt­varna­lögum er sótt­varna­hús skil­greint sem staður þar sem ein­stak­lingur, sem ekki á sama­stað á Ís­landi eða getur ekki eða vill ekki ein­angra sig í hús­næði á eigin vegum, getur verið í sótt­kví eða ein­angrun vegna gruns um að hann sé smitaður af far­sótt eða stað­fest er að svo sé.

Ekkert í þessum texta fjallar um að skylda megi fólk til dvalar í þess konar húsum.

Það er reyndar heimild til sótt­varna­læknis til þess arna, en það er þegar að­staðan er sú að fólk hafi fallist á sam­starf um að fylgja reglum um sótt­kví en í ljós komi að reyndin hafi verið önnur.

Í þessum reglum er vísað til ferða­manna. Hvort það hug­tak tekur til Ís­lendinga á heim­leið, eins og dæmi eru um meðal vist­manna í sótt­varna­húsi, er ó­ljóst.
Í lögunum segir að ráð­herra sé heimilt að kveða á um í reglu­gerð að fólk gangist undir sótt­kví óháð því hvort grunur sé um að þeir hafi smitast – en þá að­eins „til að bregðast við til­tekinni hættu eða bráðri ógn við lýð­heilsu“.

Í frétta­skýringu á vef Frétta­blaðsins frá því á laugar­dag kemur fram að þing­menn sem rætt var við hafi efa­semdir um hvort þeir tímar sem við nú lifum og koma Ís­lendinga heim teljist „hætta eða bráð ógn við lýð­heilsu“.

Þetta er lykil­at­riði. Þegnar þessa lands verða að geta treyst því að ekki sé lengra gengið í tak­mörkunum og hömlum en nauð­syn krefur og heimilt er.
Stjórn­völd eru bundin af reglu um meðal­hóf. Sú regla segir að stjórn­vald skuli því að­eins taka í­þyngjandi á­kvörðun þegar lög­mætu mark­miði, sem stefnt er að með á­kvörðuninni, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Þess skuli þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauð­syn krefur.

Ekki ber á öðru en við þessa reglu­setningu hafi meðal­hófið gleymst.
Sótt­varna­ráð­stafanir eru mikil­vægar. Um þær þarf að vera sátt. Ekki var von til þess að svo yrði.
Við getum ekki liðið að gengið sé frjáls­lega um grund­vallar­mann­réttindi á borð við frelsi ein­stak­lingsins. Við getum ekki sætt okkur við að fólk sé svipt frelsinu þegar önnur og vægari úr­ræði eru til­tæk.

Þetta er ó­fært.