Ég beið mjög spenntur eftir þriðju seríu af Ófærð. Sérstaklega eftir að ég las að Andri hefði fært sig um set innan lögreglunnar og væri nú farinn að sinna rannsókn efnahagsbrota. Loksins íslenskur sakamálaþáttur á mínu áhugasviði! Þegar fyrsti þáttur hófst runnu á mig tvær grímur, enn annað morðið úti í sveit og Andri ekki lengi að snúa baki við innherjasvikum og skattamálum. Skellur.

Miklir möguleikar fyrir bí. Ég var farinn að sjá fyrir mér svakalega spennandi seríu: Mikið óveður veldur truflun á rafmagni og nettengingum. Fyrir vikið eru viðskipti í Kauphöllinni stöðvuð („Ófærð“ í viðskiptum með verðbréf og fjárfestar „Trapped“ með illseljanlegar eignir). En það er einhver að stunda innherjasvik. Andri þarf að komast að því hver það er, áður en markaðir opna aftur.

Á sama tíma er íslenskt stórfyrirtæki að ganga frá fjármögnun nýs verkefnis sem gæti skapað þúsundir starfa. Stöðvun viðskipta í Kauphöllinni setur allt ferlið í uppnám, fjárfestar þurfa að losa fé á markaði til að ljúka við fjármögnunina og án virkrar verðmyndunar á skuldabréfamarkaði reynist samningsaðilum erfitt að ná saman um vaxtakjör. Fjöldi annarra samninga situr á hakanum og fyrir vikið er vaxandi ólga í samfélaginu.

„Ófærð“ í Kauphöllinni er líklega svipað sjaldgæf og morð í íslenskum smábæjum. Viðskiptakerfi Kauphallarinnar hefur til að mynda ekkert hikst­að síðastliðin tvö árin. Viðskipti með einstaka verðbréf eru að sama skapi ekki stöðvuð nema rík ástæða sé til, svo sem ef fjárfestar hafa ekki aðgang að sömu upplýsingum og tryggt er að stöðvunin valdi ekki tjóni á hagsmunum fjárfesta eða starfsemi markaðarins. Sem er mjög gott, því áhrifin af því að fjárfestar geti ekki fjárfest eða losað um eignir geta verið umtalsverð (þó framangreint dæmi sé vissulega nokkuð ýkt).

Gæti orðið gott sjónvarp. Andri að rúnta um Borgartúnið á Isuzu Trooper-num, Hinrika komin suður því Bárður flæktist í eitthvert crypto-svindl. Væri svo sem hægt að henda inn einu morði líka, fyrir fólk sem hefur áhuga á slíku. Ég er allavega fullur af hugmyndum, svo Balti má endilega heyra í mér fyrir seríu fjögur.