Alþingi samþykkti einróma breytingar á sóttvarnarlögum (sem velferðarnefnd stóð öll að) til að styrkja stoðir undir harðari varnaraðgerðir en þau höfðu leyft. Sóttvarnarlæknir lagði til nýjar reglur og heilbrigðisráðherra setti reglugerð mjög nærri því sem lagt var til. Það var gert með samráði við lögfræðinga sem eru sóttvarnaryfirvöldum til taks, eins og jafnan er.

Þeir sem töldu sig beitta órétti með þessu brugðust við og Héraðsdómur dæmdi sem svo að kærendur hefðu rétt fyrir sér. Lögfræðingar eru ekki á einu máli hvort sá úrskurður standist en það á ekki að koma á óvart því lagatúlkun og lögfræðiálit eru alloft deiluefni fræðimanna.

Með öðrum orðum: Reglugerðin reyndist gölluð en lög voru ekki brotin samkvæmt úrskurði Héraðsdóms. Landsréttur vísar málinu frá og skiptir sér ekki af því frekar með efnislegri meðferð.

Sóttvarnalæknir og ráðherra bregðast við með því að breyta reglugerðinni. Ferlið er allt með felldu samkvæmt stjórnsýslu- og almennum lögum og hvorki héraðsbrestur né lýðræðisglæpur. Bæði sóttvarnalæknir og ráðherra, ásamt landlækni og fjölmörgum sérfræðingum, svo ekki sé minnst á heilbrigðisstarfsmenn og marga aðra, hafa staðið sig afburða vel í baráttunni við kórónuveiruna og heilsuafleiðingar hennar. Alþingi taldi sig á sömu leið sóttvarna með sínum einróma samþykktum.

Úr þessari gölluðu, fyrri reglugerð er reynt að gera aðför að stjórnarskrá, aðför að frelsi fólks og lýðræði, kröfu af afsögn ráðherra og jafnvel rætt um fólsku gagnvart samfélaginu. Í kolli a.m.k. sumra orðhákanna nærist sú furðulega hugmynd að staða, með því sem kalla mætti ásættanlegum fjölda smita, sé raunhæf eða jafnvel æskileg, rétt eins og heimsfaraldur sé stjórnhæfur og ábyrgð á mannslífum teygjanleg.

Reyndin er sú að mikill meirihluti íslensks samfélags styður öflugar sóttvarnaraðgerðir. Margir sjá í gegnum pólitíska holtaþoku sem reynt er að búa til og á sér ekki stoð í ábyrgri stjórnsýslu eða skilningi á samfélagsskyldum frammi fyrir skæðri sótt. Sem flestir ættu að skoða almannavarnalögin, gr. 23 – 27 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2008082.html), þar sem mjög harðar aðgerðir lögreglu og stjórnvalda hafa styrka lagastoð, ströng boð og bönn eru leyfð og skilgreindar, borgaralegar þegnskyldur mynda vörn gegn afleiðingum margs konar nátturvár, ófriðar, kjarnorkuslysa o.fl. Þau lög eiga ekki við nú en minna á hvað samstaða og samhjálp skipta miklu máli og hve frelsi, jafnt sem stjórnsýslu, fylgir mikil ábyrgð.