Það er ótrúlegt hvað maður sem var uppi fyrir 800 árum getur haft mikið aðdráttarafl. Hann var sem sagt í blóma lífsins árið 1250, ímyndið ykkur það. Hann bjó vestur í Dölum en þangað er um tveggja og hálfs tíma akstur frá Reykjavík. Til þess að komast til fundar við þennan mann á rafmagnsbíl þarf meira að segja að hlaða bílinn á bakaleiðinni með tilheyrandi umstangi, en það er engin hindrun.

En hver skyldi þessi mikli sjarmör vera? Jú, hann heitir Sturla Þórðarson og skrifaði hluta Sturlungasögu, eina gerð Landnámabókar, var konunglegur sagnaritari og ef til vill höfundur fleiri frægra Íslendingasagna eins og Eyrbyggju.

Um helgina hélt Sturlufélagið Sturluhátíð sem tileinkuð var þessum mikla sagnaritara. Stofnandi Sturlufélagsins var Svavar heitinn Gestsson, fyrrverandi ráðherra, og hann var svo sniðugur að fá í lið með sér aðra hamhleypu, Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis, til þess að stýra félaginu. Seint verður sagt að Svavar og Einar hafi verið sammála í pólitík, en Íslendingasögurnar eru hafnar svo langt yfir stjórnmálaþref.

Sturluhátíð var ekki ein af þessum hefðbundnu útihátíðum þar sem allt er á útopnu með sölutjöldum og fánum heldur rólegheita viðburður; göngutúr með fornleifafræðingum um Staðarhól í Dölum þar sem Sturla Þórðarson bjó og síðan fyrirlestrar og tónlist í Félagsheimilinu Tjarnarlundi með tilheyrandi kaffiveitingum og kleinum í boði heimamanna.

Flestir áttu von á um 10 til 20 manna samsæti sérvitringa sem eru með Íslendingasögurnar á heilanum en það varð nú aldeilis ekki raunin. Þegar hátíðarstundin rann upp hafði myndaðist löng bílalest frá þjóðvegi 1 og inn allan afleggjarann að Staðarhóli, svo mikill var áhuginn.

En leyndarmálið var ekki bara Sturla Þórðarson. Einar Kárason rithöfundur hefur fært Íslendingum Sturlungu í frábærum nýjum búningi sem gerir það að verkum að Hvamms-Sturla og niðjar hans, Snorri, Sighvatur, Þórður kakali og Sturla Þórðarson, eru orðnir heimilisvinir á ný. Einar var auðvitað aðalfyrirlesarinn á Sturluhátíð sem ekki dró úr aðsókninni. Til að kóróna allt saman tróðu tvö af barnabörnum Svavars Gestssonar, þau Tumi og Una Torfabörn, upp á hátíðinni, með frábærri tónlist, enda Una á góðri leið með að verða einn vinsælasti tónlistarmaður landsins.

Hinum vígreifu Sturlungum hefði sko ekki leiðst í Tjarnarlundi um helgina.