Endurnýjuð ríkisstjórn vinstri- og hægriaflanna á Íslandi, með fulltingi Framsóknar, máir að vissu leyti burtu gleggstu og elstu áherslulínurnar í íslenskri pólitík, á milli kommanna og íhaldsins, alþýðunnar og efnafólksins, forsjárhyggjunnar og einkaframtaksins, ríkisvæðingarinnar og frelsiskröfunnar.

Og það er raunar með hreinum ólíkindum að þessir tveir flokkar, með fulltingi Framsóknar, skuli aftur setja netin í sama bát og ætla sér að sækja sömu miðin á ný, þótt ekki væri nema sakir blótsyrðanna sem þeir hafa sent hvor öðrum í ræðustól Alþingis um áratugaskeið – og nægir þar að minnast rauðþrútins Steingríms J. Sigfússonar á yfirsnúningi ummæla sinna með samankrepptan Davíð Oddsson að baki sér, en þá – og það er stutt síðan – þótti það vera raunverulegur pólitískur ómöguleiki að þessar öfgar íslenskrar stjórnmála myndu nokkru sinni sænga saman, og hvað þá í friði og makindum.

En hvað merkir þetta fyrir íslensk stjórnmál? Átta ára hjónaband kommanna og íhaldsins, með fulltingi Framsóknar? Jú, stjórnarandstaðan mun abbast eitthvað upp á sviðið, af og til, gáttuð á ráðahagnum, eilítið samstilltari en áður eftir messufallið hjá Miðflokknum, en allsendis óvíst er að hún geti boðið betur en borgaralegu vinstriöflin sem tekið hafa af þeim völdin, að því er virðist til frambúðar, af því einfaldlega að málefnalegur styrkur þeirra er samanlagt ekki sannfærandi.

Og því er líklegra en ekki að landsmenn sitji uppi með langvarandi moðsuðu þessara ystu afla íslenskra stjórnmála, með fulltingi Framsóknar, sem kunna að halda völdum á framtaksleysinu einu saman. Og hvað þýðir það? Jú, pólitíkin verður látin í friði. Hennar sér vissulega stað í skiptingu ráðuneyta og á flutningi verkefna innan Stjórnarráðsins, en þannig er gert út um pirringinn um stund, en svo verður einfaldlega sett á sjálfstýringu málamiðlananna.

Og fyrir vikið fá landsmenn sitt lítið af litlu sem engu, hvorki sterka og framsækna velferðarstjórn sem mun hlúa að heilbrigðis- og velferðarkerfinu af öllu afli og halda ríka tryggð við ríkishyggjuna og eftirlitið með öllu kviku, né róttæka hægristjórn sem mun fækka ríkisstarfsmönnum og leggja niður ríkisfyrirtæki, ellegar gefa hluti frjálsa sem aðrar þjóðir í kringum okkur líta á sem sjálfsagt mál.

Við munum fá minni pólitík. Minni Steingrím. Minni Davíð. Og við munum fá óbreytt ástand á svo mörgum sviðum, á sjó og landi og lofti.