Eitt mikilvægasta málið sem mun koma til kasta Alþingis á vorþingi er frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Þetta er mál sem hefur verið lengi í vinnslu og ferlið ber þess merki að vandað hefur verið til verksins. Hálendi Íslands er einstakt svæði á heimsvísu þar sem finna má afar fjölbreytt landslag og náttúru. Tilkoma þjóðgarðs myndi styrkja umgjörðina og gefa almenningi betri tækifæri til að upplifa töfra hálendisins.

Meðal þeirra álitaefna sem greiða þarf úr er hvort og hvernig orkuvinnsla og þjóðgarður fara saman. Augljóslega verða aldrei allir fullkomlega sáttir þegar tekist er á um hagsmuni orkunýtingar og náttúruverndar. Sjálfur hefur ráðherrann sagt að frumvarpið sé málamiðlun. Væri hann einráður myndu engar nýjar virkjanir rísa á hálendinu. Rammaáætlun var einmitt málamiðlun ólíkra sjónarmiða og þótt deilt sé um flokkun einstaka virkjunarkosta hefur þetta fyrirkomulag dugað ágætlega.

Miðað við drögin að frumvarpi um Hálendisþjóðgarð verður dregin lína í sandinn við 3. áfanga rammaáætlunar. Alþingi mun á vorþingi einmitt fjalla um þann áfanga rammaáætlunar og flokkun virkjunarkosta hennar. Einn virkjunarkostur í nýtingarflokki myndi samkvæmt tillögu að rammaáætlun lenda innan þjóðgarðsins en það er Skrokkalda. Landvernd hefur varað við þeim áformum en virkjunin yrði staðsett á milli Vatnajökuls og Hofsjökuls.

Það færi vel á því að þingmenn myndu færa Skrokköldu úr nýtingarflokki en áætluð orkuvinnsla virkjunarinnar er 345 gígavatnsstundir á ári. Til samanburðar var heildar orkuvinnsla á Íslandi tæplega 20 þúsund gígavatnsstundir árið 2018. Hér eru ekki slíkir hagsmunir undir að það réttlæti virkjun á þessum stað sem myndi rýra verulega gildi Hálendisþjóðgarðs. Þá á eftir að taka afstöðu til valkosta í biðflokki en fjölmargir þeirra eru innan marka fyrirhugaðs þjóðgarðs. Verði lög um stofnun Hálendisþjóðgarðs samþykkt er ljóst að virkjunarkostir í biðflokki innan þjóðgarðs þurfa að standast afar strangar kröfur til að færast í nýtingarflokk.

Allir flokkar á þingi nema Miðflokkurinn skrifuðu undir skýrslu sem frumvarp um þjóðgarðinn byggir á. Það vekur vonir um að góð pólitísk samstaða náist um stofnun þjóðgarðs. Það felast mikil tækifæri í þessu verkefni en um leið fylgir því mikil ábyrgð. Umhverfisráðherra hefur sagt að stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar hingað til. Það er í höndum Alþingis að tryggja að svo megi verða.