Endurreisn ferðaþjónustunnar helst í hendur við hversu hratt tekst til við bólusetningu þjóðarinnar. Þar er mikið undir og væntingar um að atvinnugreinin – sem er haldið á lífi með opinberum stuðningsaðgerðum og lánafrystingum bankastofnana – myndi rísa upp á nýjan leik í sumar og skapa gjaldeyri fyrir þjóðarbúið fara nú þverrandi. Það gæti reynst mörgum fyrirtækjum, sem eru að verða súrefnislaus, banabiti og um leið mun það óneitanlega hafa áhrif á ríkisfjármálin en í forsendum fjárlaga þessa árs er gert ráð fyrir um 900 þúsund ferðamönnum. Hæpið er að sú spá muni ganga eftir. Það þýðir að atvinnuleysið, sem mælist nú um 11 prósent og kostar ríkissjóð liðlega 100 milljarða á ári, er ekki að fara að ganga niður svo neinu nemi á næstunni.

Stjórnvöld hafa gegnt lykilhlutverki við að milda áhrifin af kórónakreppunni. Dregið hefur verið úr taumhaldi í ríkisfjármálum og opinber útgjöld aukist í því skyni að örva innlenda eftirspurn og einkaneyslu. Fáir efast um að slíkt hafi verið efnahagsleg nauðsyn – þó ávallt sé um það deilt hversu langt eigi að ganga. Herkostnaðurinn af þeim úrræðum, ásamt hinu mikla tekjutapi sem ríkissjóður hefur orðið fyrir í þessari dýpstu kreppu lýðveldissögunnar, birtist okkur hins vegar meðal annars í þeirri staðreynd að hreinar skuldir ríkisins hafa hækkað um 240 milljarða undanfarna tólf mánuði. Nú þegar ljóst er að faraldurinn virðist vera að dragast á langinn er hætta á því að hallarekstur ríkisins, sem er áætlaður um 300 milljarðar í ár, verði enn meiri með tilheyrandi auknum vaxtakostnaði.

Hækkandi langtímavextir á markaði er áhyggjuefni á tímum þegar við þurfum að nýta okkur lágvaxtaumhverfið til ýta undir aukna fjárfestingu í atvinnulífinu.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið skýr í því að ekki eigi að draga til baka stuðninginn of snemma á meðan áhrifa farsóttarinnar gætir. Sú afstaða er skynsöm og í samræmi við sjónarmið AGS. Það hefur verið okkar gæfa – og gert okkur kleift að fást við þessar hamfarir – að fara inn í þessa kreppu með skuldléttan ríkissjóð og stóran gjaldeyrisforða. Hröð skuldasöfnun – þær hækka úr 30% í 60% til ársins 2025 – kallar hins vegar á mikla lánsfjárþörf ríkisins sem hefur þær afleiðingar að þrýsta upp vöxtum á skuldabréfamarkaði. Til að sporna gegn þeirri þróun boðaði Seðlabankinn kaup á ríkisbréfum, fyrir allt að 150 milljarða, en nærri ári síðar hefur bankinn, sem virðist óttast áhrif aukins peningamagns á verðbólguna, kosið að vera á hliðarlínunni. Niðurstaðan er sú að langtímavextir hafa ekki verið hærri frá því í árslok 2019 – þegar vextir Seðlabankans voru 3% - og íslenska ríkið er því að fjármagna sig á hærri kjörum innanlands en meðal annars Serbía, ríki með sinn eigin gjaldmiðil en lægra lánshæfismat.

Þetta er staða sem við eigum ekki að sætta okkur við. Komandi þingkosningar í haust munu einkum snúast um sköpun nýrra starfa – og þau þurfa að verða til í einkageiranum, ekki hjá hinu opinbera, eigi að takast að standa undir aukinni skuldsetningu ríkisins án hækkunar skatta og niðurskurðar í komandi framtíð. Hækkandi langtímavextir á markaði, sem er grunnur að vaxtakjörum fyrirtækja, er þess vegna áhyggjuefni á tímum þegar við þurfum að nýta okkur lágvaxtaumhverfið til ýta undir aukna fjárfestingu í atvinnulífinu. Úr þessu þarf að bæta sem fyrst.