Þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð verður á næstu vikum bíður enginn dans á rósum. Fram til þessa hefur umræðan snúist að mestu um barnalegar vangaveltur um ráðherrastóla, valdahlutföll og samkvæmisleiki um einstaklinga og völd.

Fyrir kosningarnar í september streymdu fram loforð um útgjöld hér og þar, verkalýðshreyfingin hélt úti auglýsingum þar sem því var haldið fram fullum fetum að nóg væri til af peningum fyrir allt og alla. Stjórnmálaflokkarnir lofuðu ýmist miklum útgjöldum eða skattalækkunum, nema hvort tveggja væri. Enginn minntist á þá alvarlegu staðreynd að skuldastaða ríkissjóðs er skelfileg. Þar kemur til mikill Covid-kostnaður, en ekki má gleyma því að fyrir Covid var rekstur ríkisins ósjálfbær. Ríkisbáknið hefur þanist taumlaust út og ríkissjóður er rekinn með vaxandi halla. Covid hefur svo aukið á þann vanda. Vextir eru farnir að hækka að nýju þannig að vaxtamunurinn á milli Íslands og umheimsins eykst nú með hverjum vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans og gengi krónunnar er orðið of hátt, sem rýrir afkomu útflutningsatvinnugreina.

Ekkert hefur breyst eftir kosningar. Enginn ræðir um kjarna málsins, sem er hin alvarlega skuldastaða ríkissjóðs og ósjálfbær rekstur ríkisins í bráð og lengd. Stjórnmálaforingjarnir kjósa fremur að spekúlera í ráðherrastólum

Gríðarleg skuldabyrði

Samanlagður halli ríkissjóðs 2020 og 2021 verður yfir 500 milljarðar, sem er helmingur af fjárlögum ríkissjóðs í ár, og þá er verið að horfa til gjaldahliðarinnar. Ef horft er á tekjuhliðina nemur halli þessara tveggja ára nær 2/3 tekjuöflunar ríkisins í ár. Þetta hlutfall er skelfilegt. Ráðamenn reyna að kenna veirufjandanum um stöðuna en rekstur ríkissjóðs var hins vegar orðinn ósjálfbær áður en Covid-19 dundi yfir.

Ljóst er að ríkissjóður stendur uppi með um það bil 700 milljarða halla eftir Covid og skuldasöfnun sem hafin var með hallarekstri ríkisins fyrir faraldurinn. Að óbreyttu stefnir í áframhaldandi skuldasöfnun ríkisins hvort sem faraldurinn heldur áfram eða gefur eftir. Ef tekið er mið af verðbólguhorfum, sveiflukenndum gjaldmiðli og vaxtahækkunarferli Seðlabankans er varlegt að ætla vaxtabyrði ríkissjóðs, aðeins vegna þessa skuldahala, á bilinu 30 til 40 milljarða á ári.

Áhrif loðnuvertíðar ofmetin

Þær góðu fréttir bárust í byrjun mánaðar að loðnukvótinn verður yfir 900 þúsund tonn að ráði Hafrannsóknastofnunar. Greiningardeildir meta það svo að þetta geti aukið þjóðartekjur um 100 milljarða á næsta ári og bætt 0,8 prósentum við hagvöxt. Gott og vel, hér kemur innspýting en hún verður hvergi nærri jafn mikil og greiningardeildir búast við. Góð vertíð eftir áramót hjálpar vissulega í nokkrar vikur. Það skot mun hins vegar valda styrkingu krónunnar sem dregur úr ávinningnum. Innspýtingin setur aukinn þrýsting á vaxtahækkunarferli Seðlabankans, sem aftur veldur hærra gengi og þenslu.

Mikið framboð loðnuafurða mun lækka verð þeirra. Þar er að verki lögmálið um framboð og eftirspurn. Innspýtingin mun síðan ekki koma inn í hagkerfið sjálft nema að takmörkuðu leyti. Laun og ýmis kostnaður tengdur vinnslu á loðnunni rennur inn í hagkerfið en söluverðmætið erlendis kemur ekki nema að litlu leyti inn í hagkerfið. Gjaldtaka vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar er í mýflugumynd og megnið af útflutningstekjunum endar sem nokkurs konar einokunar­hagnaður stórútgerðarinnar sem situr að aflaheimildum. Þær tekjur auka fjárfestingargetu stórútgerðarinnar og möguleika á greiðslu arðs en fara ekki nema að litlu leyti inn í hringrás hagkerfisins hér á landi. Því eru væntingar um að aukinn loðnukvóti til stórútgerðarinnar reynist hvalreki fyrir ríkissjóð fullkomlega innistæðulausar.

Nauðsynlegt að forgangsraða

Allir stjórnmálaflokkar hafa lofað stórauknu fjármagni í heilbrigðiskerfið. Vafasamt er að slík loforð séu raunhæf við þessar kringumstæður. Verði fjármagn aukið til heilbrigðismála þarf greinilega að taka það einhvers staðar frá. Gæluverkefni á borð við hálendisþjóðgarð, sem nær yfir nær allt hálendi Íslands, verða vegin á móti þörfinni fyrir fjármagn í heilbrigðiskerfið. Ekkert svigrúm er fyrir gæluverkefni af slíku tagi ætli menn að taka af ábyrgð á stöðu ríkissjóðs.

Krónan er of há og vaxtahækkunarferli Seðlabankans og stór loðnuvertíð munu enn auka á vandann, sem óhjákvæmilega fylgir þeim örgjaldmiðli sem krónan er. Raunar blasir við að flökt krónunnar verði mikið á komandi misserum. Ómögulegt er að tala um stöðugleika í hagkerfi sem ekki býr við stöðugan gjaldmiðil. Hér á landi ríkir því hvorki stöðugleiki né er hann fyrirsjáanlegur um ókomna tíð.

Ótryggur gjaldmiðill og óvissa á vinnumarkaði

Þá eru lausir kjarasamningar haustið 2022. Fyrir liggur að atvinnulífið ræður illa við þær hækkanir sem þegar eru komnar til framkvæmda og eru mismunandi eftir hópum, allt frá 5,8 prósentum og upp í 12,5 prósent. Ærið verkefni er að standa undir slíkum launahækkunum og verðbólguþrýstingur stafar meðal annars af því að mörg fyrirtæki geta ekki annað en velt kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Ræður atvinnulífið við nýja bylgju launahækkana í vaxtahækkunarferli með gjaldmiðil sem skoppar eins og korktappi í stórsjó?

Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs er þegar mjög löskuð vegna launahækkana, gengisþróunar og vaxtastigs, sem þyngir fjármögnun íslenskra fyrirtækja gífurlega, þrátt fyrir að vextir hér á landi hafi ekki verið lægri í marga áratugi. Sýnir þetta gjörla hve mjög krónan hamlar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, eða alla vega þeim hluta þess sem ekki fær niðurgreiddan aðgang að þjóðarauðlindum.

Horfist stjórnmálamenn ekki í augu við þessar alvarlegu staðreyndir verða afleiðingarnar alvarlegar. Kjósi þeir fremur að stunda áfram samkvæmisleiki um völd og stólaskipan en að einbeita sér að kjarna málsins er einsýnt að næsta ríkisstjórn lendir á hvolfi úti í skurði. Þá verða engir sigurvegarar, nema kannski helst þeir sem tapa stólaleiknum sem nú er í gangi.