Um liðna helgi var enn á ný til­kynnt um hertar sam­komu­tak­markanir. Eftir þróun síðustu daga og vikna kom það varla nokkrum á ó­vart þó að von­brigðin hafi verið mikil. Rétt um mánaðar­bil hafði þjóðin búið við frelsi frá í­þyngjandi höftum vegna far­sóttar Co­vid-19 og skyndi­lega virtust fjölda­tak­markanir, grímu­skylda og skerðing á ferða­frelsi fjar­lægur veru­leiki. Á meðan sólin var hæst á lofti skemmti þjóðin sér sem aldrei fyrr, þeir sem ekki treystu á ís­lenska sumarið flugu suður á bóginn og sleiktu sólina með sangríu í annarri og sólar­vörn í hinni. Hinir sem eftir sátu fylltu veitinga- og skemmti­staði víðs vegar um landið, heim­sóttu bæjar­há­tíðir og nutu fegurðar landsins. En Adam átti stutta við­komu í Para­dís og Ís­land var ekki lengi veiru­frítt.

Veru­leikinn er annar en við höfðum vonað og ljóst er að það dugir ekki og mun ekki duga að taka tíma­bundinn skell og ætla svo að snúa aftur til fyrra lífs. Ríkis­stjórnin hefur róið öllum árum að því að opna landið fyrir ferða­mönnum og glæða ferða­þjónustuna þannig lífi enda undir miklum þrýstingi frá for­svars­mönnum þess at­vinnu­vegar og tekjur sem af honum hljótast vissu­lega mikil­vægar að­þrengdu þjóðar­búinu. Þessa opnun landsins hefur okkur nú tvisvar sinnum verið boðið upp á og í bæði skiptin með ömur­legum árangri.

Í fyrra skiptið var þjóðin og heims­byggðin öll óbólu­sett enda þá ekki til bólu­efni gegn veirunni. Nú í síðara skiptið er sannar­lega búið að bólu­setja bróður­part þjóðarinnar en ekki er komin mikil reynsla á þá vörn sem bólu­efnin eiga að veita, og langt í frá búið að bólu­setja heims­byggðina. Það varð fljótt ljóst eftir nýjasta af­nám tak­markana og opnun ferða­manna­flóð­gátta, að þannig átti veiran greiða leið aftur inn í sam­fé­lagið og stefnum við nú hrað­byri inn í stærstu bylgju far­aldursins til þessa. Við sem héldum að við værum í höfn.

En ef rýnt var í „smáa letrið“ þegar við fögnuðum síðasta á­fanga­sigri mátti greina að bólu­efnin veita vörn, en sú vörn er ekki full­komin. Það er jafn­framt stað­reynd að á meðan að­eins lítill hluti mann­kyns er bólu­settur hefur veiran rými og tíma til að stökk­breytast – og verða hæfari til að smita alla. Bólu­setta sem óbólu­setta. Nýjasta þekkta af­brigði veirunnar, Delta-af­brigðið, er sam­kvæmt Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni það mest smitandi hingað til. Eins veldur það öðrum ein­kennum en fyrri af­brigði sem aðal­lega ollu hita, hósta og tapi á bragð- og lyktar­skyni. Delta-af­brigðið veldur mikið frekar höfuð­verk, háls­eymslum, nef­rennsli og hita. Það er því ljóst að við erum að berjast við glæ­nýjan óvin þó svo að við þekkjum marga eigin­leika hans.

Þetta er nýr veru­leiki og hann mun ekki breytast í bráð. Hug­myndin um að hér verði efna­hagurinn réttur við með því að fá til okkar er­lenda ferða­menn er, í þessum nýja veru­leika, í besta falli ósk­hyggja. Á­kvörðun ríkis­stjórnarinnar um að opna hér allt upp á gátt kemur lóð­beint aftur í and­lit ráða­manna og allra þeirra sem treystu á það út­spil, því nú förum við úr því að vera grænt land í rautt. Ferða­menn streyma ekki til rauðra landa og þannig þurfum við hvort eð er að finna aðrar lausnir til að leysa úr efna­hags­þrengingum þeim sem stór hluti at­vinnu­lífsins býr nú við.