Í síðustu viku var tilkynnt að samningur hefði náðst á milli Bretlands og EFTA ríkjanna, Noregs, Íslands og Liechtenstein um viðskiptakjör og margt fleira. Það er ástæða til að fagna því. Bretland er einhver mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir bæði vörur og þjónustu, auk þess sem að margir Íslendingar stunda nám í Bretlandi. Því var það mikið hagsmunamál fyrir Ísland að viðskiptakjör við Bretland héldust sem næst því sem var meðan Bretland var hluti af ESB.

Þá er ástæða til að fagna því að utanríkisráðherra gerði samning með allt öðrum forsendum en síðasti stóri viðskiptasamningur Íslands sem gerður var við ESB árið 2015 og tók gildi 1. maí 2018 að lokinni fullgildingu. Í samningi Íslands við ESB var samið um um það bil 1,8 kílógramm í útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi. Það segir sig sjálft að það er ekki hagkvæmur samningur fyrir 360 þúsund manna þjóð sem semur við 600 milljóna tollabandalag Evrópusambandsins.

Þessu er snúið á hvolf samkvæmt upplýsingum sem birtust á vef Stjórnarráðsins á sunnudaginn var. En þar var samið um 20 kg af útflutningi á móti hverju kílógrammi í innflutningi. Þó það sé enn þá þannig að Bretar fái mun stærri markaðshlutdeild heldur en Íslendingar fá þá er samningurinn mun sanngjarnari en fyrri samningur. Undirritaður var staddur í fermingarveislu þegar blaðamaður upplýsti hann um þessa niðurstöðu á sunnudeginum.

Blekið var varla þornað á fríverslunarsamningi EFTA ríkjanna og Bretlands þegar Félag Atvinnurekenda hófu að kvarta yfir niðurstöðunni. Í langri fréttatilkynningu á vef félagsins eru notuð 20 orð til þess að fagna því að viðskiptasamningurinn hafi verið gerður, en hin 713 orðin eru notuð til þess að gagnrýna samningsafstöðu utanríkisráðuneytisins, leiðbeina Bændasamtökunum um hvar hagsmunir þeirra liggja auk þess að gera hagsmunaöflum í landbúnaði upp skoðanir. Hér á landi hafa nefnilega tilraunir verið gerðar síðustu ár til þess að beita gamalgrónum meðölum, að deila og drottna. Sá leikur stjórnvalda að etja saman búgreinum saman gengur ekki lengur. Flest búgreinafélög hafa ákveðið að sameinast í eina sterka heild. Þeir tímar eru einfaldlega liðnir að sú leikbók, að etja saman hvíta og rauða kjötinu virki. Þá sé það einfaldlega hlægilegt að gera tilraun til þess að etja saman sjávarútvegi og landbúnaði.

Bændasamtökin eru ekki á móti fríverslunarsamningum og frjálsri verslun. Bændasamtökin eru hinsvegar á móti ósanngjörnum samningum sem flytja störf og verðmætasköpun frá Íslandi á erlenda grundu. Viðskiptakjör landbúnaðar og annarra atvinnugreina eru best tryggð með skipulagðri greiningu á hagsmunum, tækifærum og traustum forsendum. Sú vinna var greinilega með talsverðu sleifarlagi þegar viðskiptasamningur við ESB var gerður. Niðurstaða þeirra hefur verið sú að afurðaverð til bænda hefur lækkað í ýmsum kjöttegundum á sama tíma og verð til neytenda hefur ekki lækkað í samræmi við það, raunar þvert á móti hafa flestar kjöttegundir hækkað í samræmi við hækkanir á vísitölu neysluverðs.

Kannski mætti draga ákveðinn lærdóm af gerð þessara samninga. En þau eru að samningsmarkmið þeirra séu mótuð með samtali við haghafa. Þar á Félag Atvinnurekenda augljósan hag og ættu að koma að slíkri vinnu, en þeir vilja geta flutt inn sem mest af niðurgreiddri landbúnaðarvöru til Íslands, sem oft á tíðum er framleidd með aðferðum sem væru ólöglegar á Íslandi. Hvernig samtalið fór fram við FA í þessari samningsgerð er höfundi ekki kunnugt, en miðað við að tölur eru nefndar í tilkynningu FA sem eru samhljóða og undirritaður og fulltrúar Bændasamtaka Íslands heyrðu fleygt á fundi fyrir ekki svo löngu þar sem krafa var gerð um trúnað, virðist nú samráð ráðherrans við FA hafa verið eitthvað. En Bændasamtök Íslands hafa einnig nokkurn hag, rúmlega tíu þúsund manns á Íslandi hafa lifibrauð sitt af landbúnaði eða tengdum greinum. Þeirra hagsmunir eru best tryggðir með því að gera skynsamlega viðskiptasamninga með hagsmuni heildarinnar í huga.

Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands