25. september var kosið til Alþingis hér. 26. september kusu Þjóðverjar til síns sambandsþings, Bundestag.

Í báðum löndum hafa nú þriggja flokka stjórnir verið myndaðar.

Í Þýzkalandi eru Sósíaldemókratar, Græningjar og Frjálsir demókratar á ferð.

Fyrirsögnin á við nýjan þýzkan stjórnarsáttmála. Fyrir undirrituðum er hann stórkostlegur, og vænti ég þess, að hann mun ekki aðeins tryggja framfarir og betra mannlíf í Þýzkalandi, heldur líka hafa góð og uppbyggileg áhrif í Evrópu allri. Jafnvel á Íslandi.

Því miður, get ég ekki heimfært þessa fyrisögn á nýja íslenzka ríkisstjórn og stjórnarsáttmála, þó að auðvitað sé hér líka góður vilji og ýmsir góðir menn kallaðir til verka.

Ánægju- eða gleðiskorturinn með nýja íslenzka stefnuskrá og ríkisstjórn stafar af því, að hér virðist mest vera á ferðinni gamalt vín á nýjum belgjum. Hvar er neisti góðra breytinga og framfara!? Nýrra lausna!? Hvar er frjó hugsun og dirfska til nýrra taka!?

Tilfæringar innan ráðuneyta og ný heiti þjóna kannske einhverjum praktískum tilgangi, en þessi vinna á að vera samstarf ráðherra, og því eru þessar tilfæringar meira yfirborðsmál, sem litlu breyta um innihald eða efni. Sjónhverfingar?

Þýzkur stjórnarsáttmáli liggur fyrir, og skýrir hann kannske betur, en mörg orð, mína hrifningu af honum:

- Loftslagsvernd:

Þessi nýja ríkisstjórn tekur þetta grundvallarmál framtíðar manna á jörðinni engum vettlingatökum. Fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið, að hætta kolavinnslu og framleiðslu rafmagns úr kolum 2038.

Nýja ríkisstjórnin setur aðra forgangsröð: Heill komandi kynslóða skuli ganga fyrir. Kolavinnslu og orkuframleiðslu úr kolum skal hætt 2030. Á sama hátt skal kolvetnis-hlutleysi nú náð mun fyrr, en áður stóð til: 2045.

- 25% hækkun á lægstu laun:

Þeir launamenn, sem fá lægst laun, eru þeir, sem þiggja tímalaun. Lægstu tímalaun hafa verið 9,60 Evrur. Með einu slagi hækka lægstu tímalaun nú í 12,00 Evrur. Um 25%. Það verða allir að komast af!

- Innleiðing „Bürgergeld“ eða borgaralauna:

Afkomutrygging hinna verst settu. Sama sjónarmið. Atvinnulausir, fatlaðir, veikir, eldri borgarar og aðrir, sem minna mega sín, verða líka að geta lifað mannsæmandi lífi. Borgaralaun eiga að leysa flókið og margþætt tryggingar- og styrkjakerfi af hólmi. Borgaralaunin eiga að tryggja grunnafkomu allra.

- Stórfellt átak í húsbyggingum:

Þetta gengur líka út á meiri jöfnuð og meira réttlæti í þjóðfélaginu. Byggja á fleiri íbúðir en nokkru sinni fyrr, skv. föstu og skilgreindu plani, til að tryggja hagstætt íbúðarverð og viðráðanlegt leigugald leigjenda.

- Stórátak í þróun stafrænna lausna/kerfa:

Ný þýzk ríkisstjórn skilur, að forsenda fyrir velfarnaði og hagsæld, forsenda þess, að ríkið geti tekið á sig ný útgjöld til jöfnunar lífskjara og staðið fyrir öflugri þróun þjóðfélagsins, er framsækið atvinnulíf, öflugur hagvöxtur, góða afkoma fyrirtækja og auknar skattatekjur.

Þessvegna vill ný ríkisstjórn gera Þýzkaland að leiðandi ríki heims í fjórðu iðnbyltingunni - innleiðingu stafrænna lausna við hvers konar þróun, framleiðslu og rekstur, líka á sviði samskipta og samgangna, í raun á flestum sviðum mann- og atvinnulífs - en þessi iðnbylting mun stórauka hagkvæmni, hraða, nákvæmni, virkni, afköst - framleiðni - á nánast öllum sviðum.

- Aukin mannúð: Flóttamenn eiga líka rétt:

Ný ríkisstjórn vill stórauka mannúð, móttökumöguleika og aðbúnað þeirra, sem flýja stríð, ofbeldi, óréttlæti, atvinnuleysi og örbirgð, og bæta aðstöðu þeirri og tækifæri í Þýzkalandi.

- „Friday for Future“ - Réttur unga fólksins:

Ný ríkisstjórn virðir rétt unga fólksins, þeirra, sem taka eiga við og erfa skulu landið, og færir kosningarétt niður í sextán ár, þannig, að unga fólkið fái betri aðgang að áhrifum og völdum.

- Kannabis lögleitt:

Á grundvelli þess, að vísindsmenn telja kannabis hættuminna en áfengi og tóbak, og, einkum, af því að kannabis býr yfir viðurkenndum og áhrifamiklum lækningamætti, einkum á sviða verkja- og kvalastillingar, verður kannabis lögleitt.

Þá komum við að því, sem þýzka ríkisstjórnin nýja ákvað, að ekki yrði gert:

- Skattar verða ekki hækkaðir

- skuldabremsa verður sett á ríkissjóð frá 2023 (eftir COVID?), þannig, að þýzka ríkið má ekki auka skuldir sínar

- hraðatakmarkanir verða ekki settar á þýzkar hraðbrautir, en þar verða - þrátt fyrir frjálsan hraða víða – ekki fleiri slys, en þar sem hraðatakmarkanir gilda.

Það er mat undirritaðs, að flest það bezta í stefnumálum þessara þriggja flokka hafi náð fram að ganga í þessum stjórnarsáttmála.

Ráðherrar, eða ígildi ráðherra, virðast verða sautján. Átta ganga til Sósíaldemókrata, fimm til Græningja og fjórir til Frjálsra demókrata. Þetta er í fyrsta sinn, sem Græningjar koma að sambandsstjórninni.

Olaf Scholz, Sósíaldemókrati, verður kanslari. Sléttur maður og felldur, að sjá, en þar fer klár og öflugur innri maður.

Robert Habeck, annar formanna Græningja, fær súperráðuneyti; loftslagsverndar- og viðskiptaráðuneyti.

Engin lagasetning mun geta tekið gildi, nema hún hafi fyrst fengið grænt ljós í loftslagsráðuneytinu. Loftslags- og umhverfisvernd mun verða rauður þráður í allri lagasetningu og stjórnsýslu.

Christian Lindner, formaður Frjálsra demókrata, verður fjármálaráðherra.

Annalena Baerbock, hinn formaður Græningja, verður utanríkisráðherra. Verkefni hennar verður m.a. að vinna að og tryggja framgang grænna mála víða um lönd.

Umhverfisráðuneyti og næringar- og landbúnaðarráðuneyti verða í höndum ráðherra Græningja.

Þetta er mikið gleðiefni fyrir undirritaðan, því þessi ráðstöfun mun leiða til stórfelldra frekari umbóta í umhverfis-, náttúru- og dýravernd.

Menn geta nú borið saman ofangreint prógramm nýrrar þýzkrar ríkisstjórnar, og það, sem hér er á dagskrá.

Fyrir mér vantar því miður þann neista hér, til frelsis frá gamallri og lúinni aðferðafræði, í nýjar, frumlegar og framfarasinnaðar lausnir, sem setja mark sitt á þá þýzku.