Stærsti hópur kjósenda telur sig vera á miðjunni. Þegar spurt er „Hvar myndir þú staðsetja þig á kvarða frá 0-10, þar sem 0 er til vinstri og 10 er til hægri?“ er meðaltalið í kringum 5. Ástæðan er auðvitað að meðal Íslendingurinn er frekar mikið meðal. En miðjan sjálf sveiflast. Það sem eitt sinn þótti bara frekar sjálfsagt getur annan dag þótt frekar öfgakennt og öfugt.

Slíkar breytingar gerast sjaldan yfir nótt. Það tekur hið sjálfsagða nokkurn tíma að grafa sig inn í undirmeðvitundina okkar og verða það sterkt afl að það hefur áhrif á hvernig við bregðumst við nýjum hugmyndum og skoðunum. Stundum er þetta niðurstaða hugsunarferils margra kynslóða sem við eigum erfitt með að vinda ofan af, því hið sjálfsagða er búið að róta sig í grunngildum okkar.

Svo koma nýjar hugmyndir sem ögra. Sem miðjufólk eru flestir íhaldssamir og hafa vara á sér hvað varðar miklar breytingar. Það þarf hugrekki til að efast um það sem áður þótti skynsamt og gott. Á meðan breytingarnar ganga yfir geta orðið hörð átök á milli fortíðar og framtíðar, þar sem hvorugur hópur í raun skilur hinn.

Sem betur fer eru margir, sérstaklega ungt fólk, sem er tilbúið og hefur þolinmæði til að hrista upp í sér eldri og ráðsettari til að koma að nýjum hugmyndum. Smám saman verður til ný sátt og ný miðja um hvað þykir rétt og gott. Svo horfum við til baka og skiljum ekki lengur hversu forpokuð við eitt sinn vorum og blind á það sem í dag er nýja normið.